Alsírski herinn vill Bouteflika burt

Abdelaziz Bouteflika, forseti Alsír, sækist eftir fimmta kjörtímabilinu í forsetakosningum …
Abdelaziz Bouteflika, forseti Alsír, sækist eftir fimmta kjörtímabilinu í forsetakosningum í landinu í næsta mánuði. Ahmed Gaid Salah, yfirmaður herráðsins í Alsír, krafðist þess í dag að Bouteflika yrði úrskurðaður óhæfur til að stýra ríkinu sökum heilsubrests. AFP

Yfirmaður herráðsins í Alsír krafðist þess í dag að forseti landsins, Abdelaziz Bouteflika, verði úrskurðaður óhæfur til að stýra ríkinu sökum heilsubrests.

Hörð mótmæli hafa ítrekað farið fram í Algeirsborg, höfuðborg Alsír, frá því í byrjun mánaðarins þegar Bou­teflika til­kynnti að hann hygðist sækjast eftir endurkjöri, í fimmta sinn, í for­seta­kosn­ingum í land­inu í apríl.

Bou­teflika, sem hef­ur verið for­seti frá því árið 1999, er 82 ára gamall. Í bréfi frá kosningastjóra Bouteflika segir að hann ætli sér ekki að sitja heilt kjör­tíma­bil nái hann end­ur­kjöri, held­ur taka þátt í þjóðarsam­tali og boða svo til nýrra kosn­inga, sem hann myndi ekki taka þátt í.

„Við verðum að finna leið út úr þessum erfiðleikatímum þegar í stað,“ sagði Ahmed Gaid Salah, hershöfðingi og yfirmaður herráðsins, í sjónvarpsávarpi í dag. Hann segir mikilvægt að fara eftir lögum og reglum og vísaði hann í 102. grein stjórnarskrár landsins þar sem segir að hægt sé að leysa forsetann frá völdum ef hann reynist óhæfur til að stýra landinu vegna veikinda.

Bouteflika gekkst undir læknisskoðanir í Sviss nýlega, en hann kem­ur sjald­an fram op­in­ber­lega og er sagður heilsu­veill, eft­ir að hafa fengið heila­blóðfall árið 2013.

Ef greinin verður virkjuð mun forseti öldungadeildarþings Alsír, Abdelkhader Bansallah, taka tímabundið við embætti forseta þar til forsetakosningar fara fram í apríl.

mbl.is