Ekki fleiri „meme“?

Evrópuþingið samþykkti í dag umdeilda breytingu á höfundarréttarlögum Evrópusambandsins.
Evrópuþingið samþykkti í dag umdeilda breytingu á höfundarréttarlögum Evrópusambandsins. AFP

Umdeild höfundarréttarlög voru samþykkt af Evrópuþinginu í dag. Gagnrýnendur hafa sagt lögin breyta eðli netsins, að því er segir í umfjöllun BBC. Lögin gera efnisveitur ábyrgar fyrir brotum gegn höfundarrétti.

Höfundarréttartilskipunin hlaut samþykkt Evrópuþingsins með 348 atkvæðum gegn 274. Áður en tilskipunin verður að lögum mun ráðherraráð Evrópusambandsins þó þurfa að samþykkja hana.

Margir hafa lýst yfir áhyggjum af að ritskoðun geti verið afleiðing nýrra laga, en tilskipunin mun hafa afleiðingar fyrir stafræna miðla á borð við Youtube, Facebook, Twitter og Google News.

Umdeildustu ákvæði tilskipunarinnar eru annars vegar ellefta greinin sem kveður á um að efnisveitur greiði fyrir notkun hlekkja á fréttavefi og hins vegar þrettánda greinin sem varðar ábyrgð efnisveitna.

Tilskipun Evrópusambandsins var mótmælt meðal annars í Berlín í síðustu …
Tilskipun Evrópusambandsins var mótmælt meðal annars í Berlín í síðustu viku. AFP

Evrópuþingið hefur gefið það út að þetta muni ekki hafa áhrif á „meme“, gif og minni myndbönd, sem muni vera sérstaklega undanþegin löggjöfinni. Ekki liggur þó fyrir hvernig tæknifyrirtæki eiga að framfylgja þeim orðum þingsins í ljósi takmarkana sem felast í löggjöfinni sjálfri.

Julia Reda, þingmaður Pírata á Evrópuþingi, hefur lýst sérstökum áhyggjum af tilskipuninni og sagði í dag á Twitter að þetta væri „dapur dagur fyrir netfrelsi“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert