Hætta sýningu eftir gagnrýni

Josefin Nilsson.
Josefin Nilsson. Stilla af YouTube

Ný heimildarmynd, Älska mig för den jag är, um sænska söngkonu sem var ítrekað beitt ofbeldi af hálfu sambýlismanns, hefur vakið mikla athygli í Svíþjóð og beint sjónum almennings að heimilisofbeldi í landinu. 

Tilkynningum um heimilisofbeldi hefur fækkað frá árinu 2015 en það ár kynnti sænska ríkisstjórnin aðgerðaáætlun til þess stöðva heimilisofbeldi.

Árið 2017 bárust lögreglu tæplega 10 þúsund tilkynningar um heimilisofbeldi en í rannsókn frá árinu 2014 kom fram að 14% kvenna höfðu orðið fyrir ofbeldi eða ofbeldishótunum í sambandi.

Heimildarmyndin um Josefin Nilsson, sem var vel þekkt söngkona í heimalandinu, var frumsýnd í SVT Play á föstudag en verður sýnd á SVT2 29. mars. Nilsson lést árið 2016, aðeins nokkrum vikum fyrir 47 ára afmælið, en banamein hennar var ofskömmtun lyfseðilsskyldra lyfja.

Í myndinni, sem byggir á óútgefinni sjálfævisögu Nilsson sem hún vann að er hún lést, segja systir hennar og vinir frá ofbeldinu sem söngkonan varð fyrir af hálfu fyrrverandi sambýlismanns. Maðurinn er einnig þekktur leikari í Svíþjóð en ekki á alþjóðavísu. Hann var dæmdur fyrir heimilisofbeldi í garð Nilsson undir lok tíunda áratugarins en fékk aðeins þriggja mánaða dóm. Nilsson fékk aftur á móti áverka sem aldrei læknuðust. Nafn ofbeldismannsins var ekki gefið upp í sænskum fjölmiðlum á sínum tíma.

Marie Nilsson-Lind lýsir því í heimildarmyndinni hvernig maðurinn, sem systir hennar var „brjálæðislega“ ástfangin af, beitti Nilsson líkamlegu og andlegu ofbeldi. 

Hún fékk aldrei bót meina sinna, segir Marie Nilsson-Lind. Hann gekk í skrokk á henni og auk þess glímdi Nilsson við áfallastreituröskun í kjölfarið og sálrænir áverkar hennar greru aldrei. 

Strax á laugardag hófust mótmæli við konunglega leikhúsið í Stokkhólmi og í gær ákváðu stjórnendur þess að hætta sýningum á leikriti þar sem ofbeldismaðurinn fór með hlutverk eftir fjölmenn mótmæli fyrir utan leikhúsið og harða gagnrýni í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum.

Bætt við klukkan 9:58 - fréttin hefur verið uppfærð því ofbeldismaðurinn var ekki rekinn frá leikhúsinu heldur var sýningum hætt á verkinu. 

Menningarmálaráðherra Svíþjóðar, Amanda Lind, ætlar að funda með stjórnendum leikhúsa landsins á næstu dögum og fyrsti fundurinn verður í dag með stjórnendum konunglega leikhússins. Ræða á hvernig hægt sé að berjast gegn kynferðislegu ofbeldi og áreitni innan veggja leikhúsanna.

Dómsmálaráðherra Svíþjóðar, Morgan Johansson, fagnar því að heimildarmyndin veki jafn mikla athygli á heimilisofbeldi og raun ber vitni. Meira verði að gera til þess að koma í veg fyrir það.

„Við karlmenn verðum að breyta viðhorfi okkar til þess að þetta hætti,“ sagði Johansson í viðtali við TT-fréttastofuna í gær. Hann segir að fjölmargar breytingar hafi verið gerðar á lögum landsins á undanförnum árum til þess að koma í veg fyrir slíkt ofbeldi. „En ég vildi óska þess að fleiri karlar stigju fram og fordæmdu niðurlægingu og misnotkun kvenna sem jafnvel á sér stað í daglegu lífi.“ 

Frétt SVT

Frétt Aftonbladet



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert