Milljarður dala í múr

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. AFP

Bandaríska varnarmálaráðuneytið hefur heimilað að verkfræðingar hersins fái einn milljarð Bandaríkjadala í framkvæmdir við byggingu múrs á landamærum Mexíkó. Um er að ræða fyrsta fjárframlagið úr sjóðum ríkisins á grundvelli neyðarástands í Bandaríkjunum sem forseti landsins, Donald Trump, lýsti yfir til þess að fjármagna gerð múrsins. Fjárhæðin, 1 milljarður dala, svarar til 121 milljarðs íslenskra króna.

Peningarnir verða notaðir til þess að reisa öryggisgirðingar á landamærunum, alls 91 km að lengd. Trump segir hættuástand ríkja á landamærunum og segir að það verði að girða fyrir komu glæpamanna til Bandaríkjanna. Gagnrýnendur forsetans segja að hann hafi skáldað upp að neyðarástand ríki á landamærunum. 

Frétt BBC

mbl.is