Óhugnanleg ákæra í Varhaug-máli

Sunniva Ødegård var þrettán ára gömul þegar hún mætti örlögum …
Sunniva Ødegård var þrettán ára gömul þegar hún mætti örlögum sínum seint að kvöldi 29. júlí í fyrra í Varhaug í Suður-Rogaland í Noregi. Piltur, sem þá var 17 ára, var handtekinn fljótlega en vitni höfðu þá séð hann hjóla á ofsahraða í nágrenni vettvangsins. Hann játaði verknaðinn fljótlega á sig og var talinn sakhæfur við mat geðlæknis.

Manndráp, ósæmileg meðferð á líki, rangar sakargiftir og skemmdarverk. Hún er ekki léttvæg, ákæran sem Nina Grande saksóknari hefur nú sent Héraðsdómi Jæren í norska fylkinu Rogaland í máli 18 ára gamals pilts sem borinn er þungum sökum í kjölfar hörmulegra örlaga hinnar 13 ára gömlu Sunnivu Ødegård sem fannst myrt við Møllevegen í smábænum Varhaug aðfaranótt 30. júlí í fyrra.

Meðal þess sem fram kemur í ákærunni er að sakborningurinn, sem handtekinn var daginn eftir atburðinn og játaði fljótlega á sig verknaðinn, hafi myrt fórnarlamb sitt með hamri, forðað sér, en skömmu síðar snúið aftur á vettvang ódæðisins og þá misnotað stúlkuna kynferðislega, eftir að hún var látin, auk þess að hella bensíni yfir lík hennar og gera tilraun til að kveikja í því með sígarettu, en mistekist.

Þá er honum gefið að sök að hafa vísvitandi reynt að varpa sök á annan mann við yfirheyrslur hjá lögreglu og að lokum skemmdarverk með því að hafa brotið rúðu í leikskóla skammt frá við innbrot eða tilraun til innbrots þar.

Við mat á geðrænu sakhæfi grunaða í fyrrasumar, þar sem andlegt ástand hans var metið, komst geðlæknir að þeirri niðurstöðu að hann væri sakhæfur, ekkert gæfi til kynna að hann hefði á verknaðarstundu verið haldinn geðveiki í merkingu hegningarlaga né benti nokkuð til þess að meðvitund hans hefði með einhverjum hætti verið skert þegar ódæðið var framið.

Tekið er fram í ákæru að ákæruvaldið muni hugsanlega krefjast svokallaðs varðveisludóms (n. forvaring) yfir ákærða, sem er sama úrræði og dæmt var í máli fjöldamorðingjans Anders Breivik en þá dæmir rétturinn ákærða til fangelsisvistar um ákveðinn árafjölda, svokallaðan lágmarkstíma (n. minstetid), en getur á síðari stigum framlengt refsivistina um nokkur ár í einu, án nýrrar ákæru, telji fagfólk sakamanninn ekki hæfan mannlegu samfélagi.

Grande saksóknari sagði í dag að ákvörðun um hvort farið verði fram á varðveisludóm velti á niðurstöðu Hæstaréttar í máli annars ungs afbrotamanns sem væntanleg er upp úr páskum og muni hafa fordæmisgildi varðandi refsikröfu ákæruvalds í Varhaug-málinu.

Tor Inge Borgersen, verjandi sakborningsins, segir spurninguna um geðrænt sakhæfi verða þungamiðju varnarinnar, óháð fyrri matsgerð geðlæknis. Hann segir skjólstæðing sinn játa sök í þeim ákærulið sem snýr að manndrápi, hinum vísi hann öllum á bug.

Gert er ráð fyrir að aðalmeðferð málsins hefjist fyrir Héraðsdómi Jæren 15. maí og standi í fjórar vikur.

NRK

VG

Dagsavisen

Nettavisen

Aftenposten

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert