Trump vitnar í Stalín á ný

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump.
Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump. AFP

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, segir ríkjandi (mainstream) fjölmiðla vera óvini fólksins og andstæðinga í stjórnmálum. Þetta skrifar forsetinn á Twitter í dag en líkt og fram hefur komið var nafn hans hreinsað af ásökunum um að hafa haft rangt við í kosningabaráttunni 2016.

Sakar Trump fjölmiðla um að hafa fjallað á óeðlilegan hátt um rannsókn sérstaks saksóknara, Robert Mu­ell­er, á því hvort Rússar hafi haft óeðlileg afskipti af forsetakosningum í Bandaríkjunum fyrir þremur árum. 

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Trump segir fjölmiðla óvini fólksins og enduróma þar þekkt ummæli Stalín þar sem hann lýsti pólitískum andstæðingum á þennan hátt.

Samkvæmt samantekt sem dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, William Barr, birti úr skýrslunni á sunnudag var ekki hægt að sjá að um samráð hafi verið að ræða, það er á milli kosningaskrifstofu Trumps og Rússa, þrátt fyrir að rússneskir útsendar hafi reynt að spilla kosningunum. 

Trump segir að með samantektinni sé hann hreinsaður af sök en eins og hann hefur sjálfur lýst var hann fórnarlamb „nornaveiða“ og fjölmiðlar sem fjölluðu um rannsóknina séu hluti af skipulögðu samsæri gegn honum.

Samkvæmt útdrættinum úr skýrslunni gat Mueller ekki tekið ákvörðun um hvort Trump hafi tafið réttvísina og setur það í hendur dómsmálaráðuneytisins. Barr svarar þeirri spurningu í samantektinni með því að Trump hafi ekki framið þann glæp.

Leiðarahöfundur Morgunblaðsins fjallar um málið í leiðara blaðsins í dag en þar segir meðal annars: Bandarískir „stórmiðlar“ sem trúað höfðu eigin áróðri, eiga bágt núna. 

Úr leiðara Morgunblaðsins: Stærstu og „virtustu“ fjölmiðlar Bandaríkjanna hafa hamast í þrjú ár við að birta fréttir sem „traustir heimildarmenn“ láku til þeirra um þætti samsærisins. Fjölmiðlarnir hafa haldið dampi og haft fjölda færustu manna í „rannsóknarblaðamennsku“ og ósjaldan fullyrt að „mál Trump og Rússa“ sé margfalt verra en mál Nixons forseta! Í huga bandarísks almennings er það málið sem Mueller hefur verið að rannsaka.

En samfelldir lekar „trúverðugra heimildarmanna“ hafa aldrei breyst í óyggjandi sannanir, eins og gerðist oft í Watergate forðum. Demókratar og leiðtogar þeirra í fagnefndum þingsins, hafa fullyrt lengi að sekt Trumps lægi fyrir. Þeir kröfðust þess síðast að starf Muellers yrði verndað með nýjum lögum!

mbl.is