Tveir látnir í snjóflóði í Noregi

Frá leitinni að mönnunum í dag, leitarsveit norska flughersins tekur …
Frá leitinni að mönnunum í dag, leitarsveit norska flughersins tekur myndina úr Sea King-leitar- og björgunarþyrlu sem aðstoðaði leitarmannskap á jörðu niðri. Ljósmynd/Norski flugherinn, 330. flugsveitin

Lögreglu í lögregluumdæminu og norska fylkinu Nordland barst um klukkan tólf að staðartíma í dag tilkynning um snjóflóð sem fallið hefði frá Durmålstinden og óttast væri um afdrif tveggja manna sem voru við stjórn snjómokstursvéla þar í nágrenninu.

Fór lögregla þegar á vettvang ásamt um 40 björgunarsveitarmönnum með hunda, þar á meðal tíu manna leitarhópi frá Rauða krossinum í Fauske auk þess sem Sea King-leitar- og björgunarþyrla frá flughernum aðstoðaði við leitina úr lofti.

Eftir skammvinna leit barst tilkynning um að lík beggja mannanna væru fundin. Ekkert benti til þess að fleiri hefðu verið á ferð á svæðinu og orðið fyrir flóðinu sem fór yfir einn veg og stöðvaðist skammt frá öðrum.

252 látnir í snjóflóðum frá 1972

Að sögn upplýsingasíðu Norsku vatna- og orkumálastofnunarinnar (Norges vassdrags- og energidirektorat, NVE) er viðbúnaðarstig vegna snjóflóða hátt víða í fylkjunum Nordland og Troms þessa dagana vegna mikillar ofankomu undanfarið og hefur fólk verið beðið að halda sig fjarri fjölda svæða sem talin eru upp á síðunni.

Snjóflóð í Noregi hafa kostað 252 mannslíf frá árinu 1972 til dagsins í dag, samkvæmt tölfræði sem norska ríkisútvarpið NRK hefur tekið saman. Sé litið til síðasta áratugarins eru þau flest veturinn 2010 til 2011 þegar 13 létust.

Mannskæðast þessara snjóflóða var það sem féll í Vassdalen í Narvik í Nordland 5. mars 1986 úr fjallinu Storebalak (766 m.y.s.) og hreif með sér 31 hermann og þrjá stríðsvagna sem tóku þátt í NATO-heræfingunni Anchor Express. Sextán hermannanna áttu ekki afturkvæmt úr þeim hildarleik en fram til þessa hefur enginn atburður drjúgar drukkið blóð norskra hermanna á friðartímum.

NRK

VG

Avisa Nordland

Aftenposten

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert