Fjársjóður fjölskyldunnar loks til sýnis

Mörg þúsund silfurmunir sem rússnesk aðalsfjölskylda faldi fyrir bolsévikum á sínum tíma verða til sýnis í St. Pétursborg í fyrsta skipti frá því að smiðir fundu þá fyrir tilviljun.

Um 2.000 gripi er að ræða, m.a. margvíslegan borðbúnað. Voru þeir smíðaðir af fremstu skartgripasmiðum Rússlands á sínum tíma. Gripirnir eru metnir á um 2 milljónir dollara, um 250 milljónir króna. Verða þeir til sýnis í safni sem eitt sinn var heimili rússnesku keisarafjölskyldunnar. 

Munirnir voru í eigu Naryshkin-fjölskyldunnar sem var ein ríkasta fjölskylda Rússlands. Fjölskyldan neyddist til að flýja land eftir byltinguna árið 1917. 

Í heila öld voru munirnir faldir á setri í Pétursborg sem áður var í eigu fjölskyldunnar.

„Uppgötvun sem þessi er mjög sjaldgæf, fjársjóður sem allur var í eigu sömu fjölskyldunnar og er mjög vel varðveittur. Þetta er einstakt,“ segir Olga Taratinova, yfirmaður safnsins.

Munirnir fundust fyrir slysni árið 2012 er unnið var að endurbótum á setrinu sem er í miðborg Pétursborgar. Smiðir fundu þá er þeir brutu niður steinvegg. Handan veggjarins fannst leyniherbergi fullt af kössum. 

Gripirnir voru allir afhentir safninu í fyrra. Þeir voru í fullkomnu ásigkomulagi enda hafði þeim verið pakkað inn í pappír. „Á sínum tíma voru þetta hlutir sem ein ríkasta fjölskylda Rússlands notaði dags daglega,“ segir Taratinova. Hluti þeirra, m.a. tesett, var smíðaður af skartgripasmiðum rússnesku hirðarinnar.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert