Kynna uppfærslu á MAX-8 vélum

Boeing hefur greint frá lagfæringum á umdeildu stýrikerfi sem tengt hefur verið við banvæn flugslys véla af gerðinni 737 MAX-8 í Eþíópíu og Indónesíu en alls fórust 346 í slysunum tveimur.

Í októ­ber 2018 fórst þota Lion Air með 189 um borð. Eng­inn komst lífs af. Ekk­ert frek­ar en 10. mars þegar farþegaþota Et­hi­opi­an Air­lines fórst með 157 um borð. 

Mik­il lík­indi eru með slys­un­um báðum, að sögn rann­sak­enda. Bein­ist at­hygl­in að búnaði í flug­kerfi þot­unn­ar, svo­kölluðu MCAS-kerfi sem ætlað er að hindra að flug­vél­ar of­rísi á flugi. Áður hefur verið greint frá því að flugmenn Lion Air höfðu lík­lega aðeins 40 sek­únd­ur til að bregðast við bil­un í kerfi vél­ar­inn­ar.

Samkvæmt frétt BBC er enn óvíst hvenær flugvélunum, sem hafa verið kyrrsettar um allan heim, verði leyft að fljúga að nýju. 

Hluti af uppfærslunni felst í því að sérstakt viðvörunarljós verður sett í all­ar flug­vél­ar Boeing af teg­und­inni 737 MAX-8.

Áður gátu flugfélög valið hvort slík viðvörunarkerfi væru í vélum þeirra en hvorug vélanna sem hrapaði hafði slíkt kerfi. Boeing segir að í framtíðinni verði flugfélög ekki látin greiða aukalega fyrir þennan öryggisbúnað.

Lokauppfærsla verður kynnt bandarískum flugmálayfirvöldum í lok vikunnar. Þá á að vera tryggt að MCAS-kerfið fari ekki í gang vegna bilunar í skynjurum, heldur muni kerfið átta sig á því að um bilun sé að ræða.

Samkvæmt Boeing þarf að þjálfa flugmenn að nýju með breytingarnar í huga svo flugvélarnar verði metnar öruggar og einnig þarf að uppfæra kerfin um borð í vélunum.

Frá vettvangi þar sem þota Ethiopian Airlines fórst fyrr í …
Frá vettvangi þar sem þota Ethiopian Airlines fórst fyrr í mánuðinum. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert