Lítið lík fannst á akri

Gróðurleifar hanga í mangótré skammt á þeim stað sem þorpið …
Gróðurleifar hanga í mangótré skammt á þeim stað sem þorpið Begaja í Mósambík stóð. AFP

Tólf manns héldu dauðahaldi í grein mangótrés til að verða ekki vatnsflauminum sem fylgdi fellibylnum Idai að bráð. Óveðrið olli gríðarlegri eyðileggingu um sunnanverða Afríku og breytti lífi milljóna manna til hins verra. „En eftir tvo daga brotnaði [trjágreinin],“ segir Isabel Bernard, tvítug kona sem lifði óveðrið er gekk yfir Mósambík af. Hún og sonur hennar voru meðal þeirra tólf sem höfðu haldið sér í grein mangótrésins. „Við féllum ofan í vatnið og ég missti sjónar á syni mínum. Ég leitaði alls staðar en ég vissi ekki hvar hann var. Ég varð dauðhrædd.“

Hún er enn örmagna eftir allt sem gengið hefur á frá því áin Buzi flæddi yfir bakka sína og hún neyddist til að flýja heimili sitt. Hún varð að leita skjóls í mangótrénu ásamt þriggja ára syni sínum, Zacharia, sem og sjö ára frænda sínum og átta ára frænku.  

Þorpsbúar í Begaja sem misst hafa heimili sín sitja fyrir …
Þorpsbúar í Begaja sem misst hafa heimili sín sitja fyrir utan kirkju þorpsins. AFP

Þau héldu lengi til í trénu og komust hvergi. Flóðvatn var allt umhverfis og straumur þess þungur. Þau sáu lík og dýrahræ fljóta fram hjá. Svo brotnaði trjágreinin og þau höfnuðu öll úti í straumþungu vatninu.

Vatnið var mjög gruggugt, blandað rauðum jarðvegi Mósambík. Eftir að hafa velkst um í vatninu um hríð náði hún haldi á öðru tré. En sonur hennar var hvergi sjáanlegur.

„Ég eyddi þremur dögum í því tré eða allt þar til flóðin fóru að réna,“ segir hún. „Sonur minn var ekki hjá mér og ég vissi ekki hvað ég ætti að gera. Þetta var hræðilegt, ég var algjörlega hjálparlaus.“

Hún skreið að lokum niður úr trénu og sá þá hversu ástandið á svæðinu var hræðilegt. 

Hún hélt í þá von að sonur hennar myndi finnast á lífi en fékk svo fregnir af litlu líki sem hefði fundist á akri skammt frá. Þetta reyndist vera lík Zacharia. Hann verður jarðaður á þeim stað þar sem hann fannst. „Af þeim tólf sem héldu sér í trjágreinina drukknuðu sjö,“ segir móðirin unga.

Nú, um tveimur vikum eftir að áin flæddi yfir bakka sína, hanga gróðurleifar hátt uppi í trénu, um fjóra metra frá jörðu. Svo hátt stóð flóðvatnið þegar verst lét. 

Maria Joao Beijo, 7 ára, situr ásamt móður sinni, Mörtu …
Maria Joao Beijo, 7 ára, situr ásamt móður sinni, Mörtu Samuel, yfir utan kirkjuna í þorpinu Begaja. Mæðgurnar eru í hópi þeirra um 200 þorpsbúa sem misstu heimili sín í fellibylnum. AFP

Skiltið sem býður fólk velkomið í þorpið Begaja í Mósambík stendur enn uppi. Sömu sögu er ekki að segja um húsin í þorpinu sem eru næstum því öll gjörónýt.

„Vatnið eyðilagði allt,“ segir grunnskólakennarinn Zacharia Remedio. „Skólinn er nær eina byggingin sem enn stendur því að hann er gerður úr steinsteypu. Nokkur önnur steinhús standa og litla kirkjan.“

Vill ekki snúa til baka

Að minnsta kosti fimmtán þorpsbúar létust og yfir 200 misstu heimili sín. Meðal þeirra sem hafa fengið skjól í kirkjunni eftir óveðrið er Maracame Mandava. Hann kom sér upp á þak skólans er vatnið hóf að flæða og það bjargaði lífi hans. Móðir hans hlaut önnur örlög. „Hún hélt í tré en hún var gömul. Eftir að hafa verið þar í tvo daga án þess að borða fór hana að svima og hún féll ofan í vatnið,“ segir Mandava. „Við fundum lík hennar á akri í nokkurra kílómetra fjarlægð.“

Bernard vill ekki snúa aftur í þorpið sitt. „Ég óttast að þetta endurtaki sig,“ segir hún. 

Að minnsta kosti 700 eru taldir af eftir fellibylinn. Miðhluti Mósambík fór á kaf í vatn. Gríðarleg eyðilegging varð einnig í Malaví og Simbabve. Löndin þrjú eru meðal hinna fátækustu í heimi.

mbl.is