Lýsa sig ábyrg á innbroti í sendráð N-Kóreu

Kim Jong-un, leiðtogi N-Kóreu. Cheollima samtökin hafa það yfirlýsta markmið …
Kim Jong-un, leiðtogi N-Kóreu. Cheollima samtökin hafa það yfirlýsta markmið að koma honum frá völdum. AFP

Samtök sem hafa það yfirlýsta markmið að koma Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, frá völdum, hafa lýst á hendur sér innbroti í sendiráð Norður-Kóreu á Spáni í febrúar.

Segir BBC Cheollima, sem eru sjálfsskipuð mannréttindasamtök, hafa flúið á brott úr sendiráðinu með tölvur, síma og harða diska. Samtökin neita því hins vegar alfarið að þau hafi beitt valdi við innbrotið, sem framið var 22. febrúar. Ekki hafi verið um „árás“ að ræða.

Dómari við hæstarétt Spánar segir hins vegar 10 manna innrásarliðið hafa bundið, barið og yfirheyrt starfsfólk.

Að sögn BBC er hins vegar enn óljós hversvegna innbrotið hafi verið framið, en Cheollima samtökin skrifuðu á netinu að þau hafi „brugðist við áríðandi aðstæðum í sendiráðinu í Madrid. Cheollima samtökin vöktu fyrst athygli er þau sögðust hafa komið Kim Han-sol, syni Kim Jong-nam hálfbróður norður-kóreska leiðtogans burt frá Kína, eftir að faðir hans var myrtur á flugvelli í Malasíu 2017.

„Það er til að vernda þá sem leita hjálpar okkar og þá sem taka mikla áhættu til að vernda aðra. Við getum ekki deilt meiri upplýsingum um atvikið á þessum tímapunkti,“ sagði í yfirlýsingu samtakanna. Kveðst Cheollima þó hafa deilt „upplýsingum sem mögulega hafi verulega mikið gildi,“ með bandarísku alríkislögreglunni FBI og bandarískum njósnastofnunum“ og að komist hafi verið að sameiginlegu samkomulagi við stofnanirnar um trúnað.

Innbrotið átti sér stað nokkrum dögum áður en þeir Donald Trump Bandaríkjaforseti og Kim funduðu í Hanoi í Víetnam.

Dómarinn José de la Mata aflétti í dag úrskurði um leynd sem hvílt hafði yfir rannsókninni og segir hann hópinn hafa tilgreint sig sem „liðsmenn sjálfskipaðra mannréttindasamtaka sem vilji frelsa Norður-Kóreu. Einum þeirra, Adrian Hong Chang, var hleypt inn í sendiráðið til að ræða við viðskiptasendifulltrúa sendiráðsins og þustu félagar hans inn þegar búið var að hleypa honum inn.

Er hópurinn sakaður um að hafa yfirheyrt sendifulltrúann og reyna að sannfæra hann um að flýja. Er hann neitaði var hann bundinn og skilinn eftir í kjallaranum að því er dómarinn segir.

Tveir til viðbótar, Bandaríkjamaðurinn Sam Ryu og Suður-Kóreumaðurinn  Woo Ran Lee hafa einnig verið nafngreindir. Segir dómarinn þá hafa haldið starfsfólki sendiráðsins í gíslingu í nokkra klukkutíma.

Einni konu tókst að flýja út um glugga sendiráðsins og höfðu nágrannar samband við lögreglu er hún hrópaði á hjálp.

Er lögregla kom á vettvang tók Adrian Hong Chang á móti þeim í jakka með merkipinna Kim Jong-un í jakkaboðungnum og þóttist vera starfsmaður sendiráðsins. Hann fullvissaði lögreglu því næst um að allt væri í lagi og ekkert hefði gerst.

Um kvöldið flúðu liðsmenn hópsins síðan sendiráðið, m.a. á þremur bílum í eigu sendiráðsins. Þeir skiptu sér upp í fjóra hópa og héldu til Portúgal samkvæmt dómsskjölum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert