Neyðarástand vegna mislinga

Bólusett er við mislingum við 18 mánaða aldur og aftur …
Bólusett er við mislingum við 18 mánaða aldur og aftur við 12 ára aldur. AFP

Lýst hefur verið yfir neyðarástandi í Rockland-sýslu í New York-ríki vegna mislingafaraldurs. Rockland er við vesturbakka Hudson-árinnar, norður af New York-borg. Yfirvöld hafa bannað óbólusettum börnum að vera meðal almennings en alls hafa 153 mislingasmit verið staðfest í Rockland.

Þeir sem brjóta tilskipunina verða sektaðir um 500 Bandaríkjadali og dæmdir í allt að sex mánaða fangelsi. Neyðarástandinu var lýst yfir í gær í kjölfar mislingafaraldra í Washington, Kaliforníu, Texas og Illinois.

Mjög hefur dregið úr því að foreldrar láti bólusetja börn sín í Bandaríkjunum. Ástæðurnar eru ýmsar svo sem trúarlegar og vanþekking á áhrifum bólusetningar. Enn er til fólk sem trúir því að bólusetning geti valdið því að börn verði einhverf. „Við munum ekki sitja hljóð hjá á meðan börn í samfélagi okkar eru í hættu,“ segir sýslumaðurinn í Rockland, Ed Day í tilkynningu. Hann segir þetta heilbrigðisvá sem verði að bregðast við.

Flestir þeirra sem hafa smitast eru innan rétttrúnaðarkirkju gyðinga, samkvæmt frétt New York Times. Talið er að smitið hafi borist frá öðrum samfélögum gyðinga innan rétttrúnaðarkirkjunnar í New York-ríki þar sem mislingafaraldur hefur geisað.

Á Íslandi eru liðnar 3 vikur frá síðasta hugsanlega smiti og telur sóttvarnalæknir að líklegast hafi tekist að stöðva faraldurinn að þessu sinni. Fjórir einstaklingar hafa greinst með staðfesta mislinga og þrír aðrir með svokallað væga mislinga („modified measles“), en það eru bólusettir einstaklingar sem hafa komist í tæri við smitaðan einstakling. Þessir einstaklingar fá vanalega væg einkenni og smita ekki aðra. Einnig hafa nokkrir einstaklingar greinst með væg mislingalík einkenni í kjölfar bólusetninga en slík einkenni eru ekki alvarleg og þessir einstaklingar smita ekki aðra.

Þær aðgerðir sem ráðist var í til að stöðva útbreiðslu mislinga hér á landi tókust mjög vel þökk sé starfsmönnum heilbrigðisstofnana og almenningi. Frá því að fyrsta tilfellið greindist hér á landi um miðjan febrúar hafa um það bil 6.749 einstaklingar verið bólusettir, 3.415 eru á aldrinum 0-17 ára, þar af 2.718 börn undir 18 mánaða aldri, og 2.572 á aldrinum 18-49 ára.

Á þessum tímamótum er samstaða á meðal sóttvarnalæknis og umdæmis- og svæðislækna sóttvarna um land allt að hverfa frá núverandi fyrirkomulagi á bólusetningum og fara að bólusetja aftur samkvæmt fyrri áætlun, við 18 mánaða og 12 ára aldur. Ekki er talin ástæða nú til að bólusetja börn yngri en 18 mánaða nema við sérstök tilefni, eins og þegar ferðast skal til landa þar sem tíðni mislinga er há. Óbólusettir einstaklingar á aldrinum 18 mánaða til 49 ára eru áfram hvattir til að láta bólusetja sig.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert