Skipið komið til hafnar á Möltu

Hópur fólks á flótta tók yfir stjórn flutningaskips eftir að áhöfn þess hafði komið fólkinu til bjargar á Miðjarðarhafi og ætlaði að sigla með það til hafnar í Líbýu. Hermenn frá Möltu voru sendir um borð í skipið og náðu þeir skipinu á sitt vald og sigldu því til hafnar á Möltu.

Áhöfn flutningaskipsins El Hiblu, sem siglir undir fána Palau, kom 108 flóttamönnum, þar á meðal börnum, til aðstoðar á þriðjudagskvöldið og sigldi áleiðis til höfuðborgar Líbýu, Trípolí. En þegar skipið átti sex sjómílur ófarnar til hafnar breytti það skyndilega um stefnu og hélt í norður í átt að Evrópu. 

El Hiblu kom til hafnar í Valletta í morgun.
El Hiblu kom til hafnar í Valletta í morgun. AFP

Innanríkisráðherra Ítalíu, Matteo Salvini, sagði í gær að skipinu hefði verið rænt og að flóttafólkið myndi ekki fá heimild til að koma til hafnar á Ítalíu. Þegar skipið, sem er 52 metrar að lengd, átti um 30 sjómílna siglingu eftir til Möltu, tókst hermönnum að komast í fjarskiptasamband við skipstjóra El Hiblu. 

Skipstjórinn greindi þeim ítrekað frá því að hann væri ekki við stjórn á skipinu og að hann og áhöfn hans hefðu verið neydd til þess að halda í átt að Möltu. Áhöfn herskipsins P21 sigldi til móts við flutningaskipið og kom í veg fyrir að það kæmist inn í landhelgi Möltu. Sérsveitarmenn voru síðan sendir um borð og tóku yfir stjórn skipsins. 

Skipið kom til hafnar í Valletta um klukkan 8:30 í morgun og er flóttafólkið nú í umsjón lögreglu.

Þýsku hjálparsamtökin Sea-Eye voru með skip á þessum slóðum og segja að áhöfn þess hafi heyrt samskipti milli evrópskra hermanna og skipstjórans bæði fyrir og eftir að flóttafólkið tók yfir stjórn skipsins. Þar hafi skipstjórinn beðið um aðstoð þar sem flóttafólkið væri ósátt og vildi alls ekki fara aftur til Líbýu. Trípolí hafi aftur á móti verið áfangahöfn flutningaskipsins.

AFP

Fólk á flótta er í mikilli hættu í Líbýu en þar á það á hættu að vera selt mansali, rænt, pyntað og nauðgað að því er fram kemur í skýrslum frá Sameinuðu þjóðunum og hjálparstofnunum. Vegna einarðrar afstöðu stjórnvalda í Róm gegn flóttafólki eru sífellt fleiri skip sem koma fólki til bjargar á Miðjarðarhafi farin að sigla með fólkið aftur til Líbýu. 

Evrópusambandið tilkynnti í gær að það myndi hætta eftirlitsferðum skipa sem hafa bjargað tugum þúsunda flóttafólks á Miðjarðarhafi og farið með það til Ítalíu. Ástæðan er mikil andstaða ítalskra stjórnvalda við að komið sé með flóttafólk þangað.

AFP
mbl.is