Milljarðar í aflandsfélög

AFP

Sackler-fjölskyldan byrjaði fyrir meira en áratug að færa fé úr lyfjafyrirtækinu Purdue Pharma í aflandsfélög í hennar nafni. Um er að ræða fleiri hundruð milljónir Bandaríkjadala eða tugi milljarða króna. Þetta kemur fram í málsókn ríkissaksóknara í New York sem lögð var fram í gær.

Letitia James ríkissaksóknari í New York.
Letitia James ríkissaksóknari í New York. AFP

Letitia James, saksóknari í New York, kynnti málsóknina á fundi með blaðamönnum í gær og þrátt fyrir að efnið sem blaðamenn fengu hafi verið ritskoðað er þar að finna sláandi upplýsingar um kerfisbundin fjársvik. Ekki bara af hálfu Sackler-fjölskyldunnar heldur einnig minna þekktra fyrirtækja sem önnuðust lyfjadreifingu lyfseðilsskyldra verkjalyfja. Pudue Pharma framleiðir OxyContin, eitt þekktasta ópíóíðalyfið. Hundruð þúsunda Bandaríkjamanna hafa látist af völdum fíknar í slík lyf.  

Tvö helstu dreifingarfyrirtækin, Cardinal Health, McKesson og Amerisource Bergen, sendu út viðvörun til lyfsala um að þeir væru að nálgast heimildina á sölu ópíóíðalyfa og aðstoðuðu þá síðan við að hagræða dagsetningum og magni til þess að komast fram hjá þeim takmörkunum sem settar voru á sölu slíkra verkjalyfja.

Á síðustu tveimur áratugum hafa yfir 200 þúsund manns látist vegna ofskömmtunar á ópíóíðum, svo sem heróíni, í Bandaríkjunum.

Í New York-ríki varð níföldun á útgefnum lyfseðlum fyrir ópíóðalyfjum á tímabilinu 2000 til 2010 og frá árinu 2013 hefur fjöldi þeirra sem hefur látist af völdum ofskömmtunar ríflega tvöfaldast. Níu íbúar í New York deyja á hverjum degi vegna ofskömmtunar.

Frétt New York Times

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert