„Blaðraði“ á meðan mávur át skjaldböku

Liz Bonnin situr skammt frá litlu skjaldbökunum rétt áður en …
Liz Bonnin situr skammt frá litlu skjaldbökunum rétt áður en mávurin kom og greip eina í gogginn. Skjáskot

Stjórnendur dýralífsþáttanna Blue Planet Live, sem sýndir eru á BBC á sunnudagskvöldum, hafa verið gagnrýndir eftir að virðast láta sér fátt um finnast er mávur át unga skjaldböku sem einn þeirra hafði skömmu áður reynt að hjálpa til hafs.

Í þættinum sem sýndur var í gær var þáttarstjórnandinn Liz Bonnin að taka þátt í björgun sæskjaldbaka á Heron-eyju í Ástralíu. Er dýrafræðingurinn Janine Ferguson hleypti sex litlum ungum úr fötu svo þeir gætu skriðið niður sandströndina og út í sjó talaði Bonnin um hversu mikilvægt væri að vernda þessa „dýrmætu einstaklinga“ fyrir rándýrum. Hún sagði að hún og Ferguson væru að rétta þeim „hjálparhönd“ við að komast leiðar sinnar í sjóinn.

Bonnin hélt áfram að útskýra og sagði: „Þeir eiga enga móður sem gætir þeirra, þeir þurfa að bjarga sér sjálfir, einir gegn náttúruöflunum og rándýrum sem bíða þeirra sem og ógnum af mannavöldum.“

Hún ýtti svo á eftir einum unganum í átt að sjónum og sagði: „Ég vona að ég megi hjálpa honum þangað.“

En er Bonnin talaði um mikilvægi skjaldbakanna fyrir lífríkið, að þær væru eins og garðyrkjumenn heimshafanna, kom mávur skyndilega fljúgandi og tók einn ungann í gogginn.

Í frétt Telegraph um málið segir að Bonnin hafi séð hvað gerðist en engu að síður haldið áfram að tala eins og ekkert hefði í skorist og sagt: „Þessir ungar munu eyða að minnsta kosti hundrað árum í höfunum okkar ef allt gengur að óskum, það er sannarlega á okkar ábyrgð að gæta að framtíð þeirra. Við þurfum að vernda bláu plánetuna okkar af krafti með aðgerðum okkar og með því að láta í okkur heyrast.“

Sumir áhorfendur þáttarins voru skelfingu lostnir eftir að sjá mávinn taka eina skjaldbökuna á meðan þáttastjórnandinn hélt áfram að „blaðra“ eins og einhverjir hafa orðað það.

Í frétt Telegraph segir að miðað við viðbrögðin á Twitter séu margir áhorfendur í öngum sínum.

„Hvað var það sem ég varð vitni að í Blue Planet Live? Að reyna að bjarga skjaldböku og svo tekur mávur eina og þú heldur áfram að blaðra í myndavélina,“ skrifaði einn áhorfandi.

 Annar áhorfandi og mikill aðdáandi þáttanna segir stjórnendurna ekkert hafa gert til að reyna að bjarga litlu skjaldbökunni. Aðrir furða sig á því að skjaldbökunum hafi verið helt úr fötunni uppi á ströndinni en ekki nær sjónum.

En hið meinta aðgerðaleysi, þótt umdeilt sé, á sér skýringar.

Talsmaður BBC segir að í þættinum hafi þáttagerðarfólk kynnt störf vísindamanna á Heron-eyju sem m.a. reyni að tryggja að skjaldbökurnar komist á ströndina til að verpa, að klakið gangi sem best og að litlu ungarnir komist sem flestir til hafs. „Grænu sæskjaldbökurnar, líkt aðrar sæskjaldbökur um allan heim, eru í vanda svo hér er unnið mikilvægt starf til að tryggja framtíð tegundarinnar,“ segir talsmaðurinn. Starf vísindamannanna felist að hluta til í því að kanna hreiður skjaldbakanna (holurnar sem þær verpa í) og athuga hvort að þar leynist einhverjir lífvænlegir ungar tveimur sólarhringum eftir að þeir klekjast út og hafa flestir þegar í stað hafið för sína til hafs. Þær skjaldbökur sem enn lifa í hreiðrinu séu fluttar við sólarupprás eða sólarlag og sleppt. Það hafi verið sá gjörningur sem áhorfendur þáttarins fengu að sjá á sunnudagskvöld.

 „Það er ekki hægt að sleppa þeim beint út í hafið því að skjaldbökurnar þurfa að „merkja“ ströndina á leið sinni til hafs,“ segir talsmaður BBC. „Í þessu tilviki, rétt eins og þegar þær fara með náttúrulegum hætti til hafs, þá nýta tækifærissinnuð rándýr sér það til að næra sig eða afkvæmi sín. Ef slíkt gerist getum við ekki skipt okkur af heldur verðum að láta náttúruna hafa sinn gang.“

Bendir hann ennfremur á að aðeins 1 af hverjum 1000 ungskjaldbökum nái fullorðinsaldri. Fyrsta prófraun þeirra í lífinu sé leiðin frá hreiðrinu og í sjóinn. Komist þær á legg komi þær svo aftur að sömu ströndum til að verpa.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem áhorfendur dýralífsþátta BBC eru ósáttir við stjórnendur þeirra. Annað nýlegt dæmi er þátturinn Dynasties en í einum þáttanna var sýnt hvernig stjórnendur grófu stiga í snjóinn upp úr gjá til að mörgæsir sem þangað höfðu fokið ættu sér lífsvon. Þar fannst sumum  stjórnendurnir skipta sér of mikið af í stað þess að láta náttúruna hafa sinn gang. Í öðrum þætti þeirrar þáttaraðar var fjallað um simpansann David sem á var ráðist svo hann nærri drapst. Kvikmyndatökumenn fylgdust með honum særðum í lengri tíma. Allt fór það þó vel því David komst til heilsu.

Stjórnendur dýralífsþátta hafa oft sagt að það sé ekki þeirra starf að bjarga dýrunum sem þeir eru að fjalla um og kvikmynda heldur einmitt að fylgjast með lífsbaráttu þeirra, hversu átakanleg sem hún kann að vera.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert