Rafmagn skammtað næsta mánuð

Forseti Venesúela, Nicolás Maduro, tilkynnti um að rafmagn verði skammtað í aprílmánuði. Jafnframt hefur vinnuvikan verið stytt og skólum lokað vegna rafmagnsleysis.

Íbúar höfuðborgarinnar, Caracas, hafa fjölmennt út á götur til að mótmæla rafmagnsleysi og vatnsskorti í borginni.

Rafmagnlaust var í Venesúela í talsverðan tíma í nýliðnum mánuði og sökuðu stjórnvöld stjórnarandstæðinga um að bera ábyrgð á því. 

Íbúar í Venesúela eru orðnir langþreyttir á ástandinu í landinu og fóru fjölmargir vopnaðir pottum og pönnum út á götur í gær. Samkvæmt upplýsingum frá mannréttindasamtökum beittu vopnaðir lögreglumenn og hermenn einhverja mótmælendur ofbeldi en leiðtogi stjórnarandstöðunnar, Juan Guaidó, segir að eina leiðin til þess að stjórnarskipti verði í landinu sé að herinn styðji hann til valda. Hingað til hafa foringjar í hernum stutt Nicolás Maduro þrátt fyrir að yfir 50 ríki séu búin að lýsa stuðningi við Guaidó.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert