Guaidó sviptur þinghelginni

Stjórnlagaþing Venesúela hefur svipt Juan Guaidó, þingforseta og leiðtoga stjórnarandstöðu landsins, þinghelginni. Stjórnlagaþingið er alfarið skipað stuðningsmönnum forseta landsins Nicoloasar Maduro og segir BBC sviptingu þinghelginnar geta leitt til  þess að Guaidó verði fangelsaður.

Stjórnlagaþingið er sagt hafa svipt Guaidó þinghelginni samkvæmt beiðni frá Hæstarétti landsins, en Guaidó segir aðgerðina ólögmæta.

Hann lýsti sig forseta landsins til bráðabirgða í janúar á þessu ári og hefur til þessa hlotið stuðning stjórnvalda í yfir 50 ríkjum, m.a. Íslands. Maduro hefur hins vegar enn stuðning hersins í landinu.

Valdabarátta Guaidós og Maduros hefur aukið enn frekar á spennuna í Venesúela, þar sem efnahagskreppa hefur valdið íbúum miklum örðugleikum undanfarin misseri.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert