Verður Assange vísað úr sendiráðinu?

Julian Assange, stofnandi WikiLeaks, gægist hér út um glugga á …
Julian Assange, stofnandi WikiLeaks, gægist hér út um glugga á sendiráði Ekvador í London. AFP

Uppljóstrunarsíðan WikiLeaks fullyrðir á Twitter-síðu sinni í kvöld að Julian Assange, stofnanda WikiLeaks, verði vísað úr sendiráði Ekvador í London innan skamms.

Segir WikiLeks að heimildamaður innan stjórnarinnar hafi greint frá því að Assange verði vísað úr sendiráðinu, þar sem hann hefur dvalið frá árinu 2012, innan „nokkurra klukkustunda“ og er fullyrt að stjórnvöld í Ekvador séu nú þegar búin að semja við bresk stjórnvöld um handtöku hans.

Fullyrðir WikiLeaks að svo nefnt INA-mál, verði gefið sem ástæða fyrir brottrekstrinum, en INA-málið snýst um ásakanir gegn forseta Ekvador, Lenín Moreno, vegna spillingar og að hann hafi hagnast á aflandsreikningum.

Mor­eno hefur ekki farið leynt með löng­un sína til þess að losna við Assange úr sendi­ráðinu, en AP-fréttaveitan greindi frá því um helgina að hann kenndi WikiLeaks um spillingarásakanir á hendur sér og birtingu á fjöskyldumyndum sínum.

WikiLeaks hefur hins vegar sagt ásakanir Morenos vera „algjöran tilbúning“ og ætli Moren sér að svipta Assange hælinu ólöglega til að dylja spillingarmál þá „eigi sagan ekki eftir að fara um hann mildum höndum“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert