15 ár frá stærsta bankaráninu

Úr kvikmyndinni NOKAS sem Erik Skjoldbjærg leikstýrði árið 2010 og …
Úr kvikmyndinni NOKAS sem Erik Skjoldbjærg leikstýrði árið 2010 og var frumsýnd í Noregi 1. október það ár. Geir Høyseth sést hér í hlutverki „sleggjumannsins“ Erling Havnå leggja til atlögu við öryggisglerið sem átti að brotna „eins og kex“ en kostaði ræningjana þess í stað fjórar tapaðar mínútur við framkvæmd þessa stærsta bankaráns á Norðurlöndunum. Skjáskot/Kvikmyndin NOKAS

Það var klukkan 08:00 að norskum tíma mánudaginn 5. apríl 2004 sem David Toska frá Bergen við ellefta mann lét til skarar skríða gegn öryggisfyrirtækinu NOKAS (Norsk Kontantservice AS) við Dómkirkjutorgið í Stavanger sem meðal annars fyllir hraðbanka Noregs af reiðufé og því á vísan að róa fyrir ræningja sem á annað borð komast þangað inn.

Þegar einn annálaðasti kickbox-iðkandi Noregs, Erling Havnå, jafnan þekktur undir viðurnefninu „sleggjumaðurinn“ eftir morguninn örlagaríka, reiddi sleggju sína til höggs gegn marghertu og fjögurra sentimetra þykku öryggisglerinu í gluggarúðu vinnuaðstöðu NOKAS-starfsfólks, átti hann ekki von á öðru en að rúðan brotnaði „eins og kexkaka“ sem voru nákvæmlega orðin sem David Toska hafði notað, maðurinn sem hafði legið yfir skipulagningu NOKAS-ránsins á annað ár og farið yfir allar mögulegar og ómögulegar hindranir sem upp gætu komið. Rúðan var á hvorugum þeirra lista, hún átti að brotna eins og kex.

Í staðinn tók það ræningjahópinn rúmar fjórar mínútur að vinna bug á rúðunni sem tókst ekki fyrr en Kjell Alrich Schumann, sem síðar þennan morgun átti eftir að skjóta Arne Sigve Klungland lögregluvarðstjóra til bana, var sóttur út á götu þar sem hann stóð vörð um vettvanginn vopnaður annálaðasta skotvopni norska hersins, AG-3-hríðskotariffli.

Með því að skjóta samtals 120 skotum úr AG-3-rifflinum á jaðra rúðunnar tókst Schumann að veikja mótstöðuna nægilega til að ræningjunum lánaðist með samstilltu átaki að fella rúðuna inn í bygginguna og klifra inn í höfuðstöðvar NOKAS. Þeir töldu björninn unninn.

Svo var þó ekki

Toska hafði gefið hópi sínum nákvæm fyrirmæli um að fylla á annan tug íþróttataskna þeirra félaga aðeins með 500 og 1.000 króna seðlum en láta 200 króna og minni seðla liggja, þeir væru ekki burðarins virði. Vonbrigðin skullu hins vegar á hópnum þegar ljóst varð að stærsti og verðmesti hluti reiðufjárbirgða NOKAS var læstur bak við stálgrindur sem engin von var til að ræningjarnir fengju knúið sig í gegnum vopnaðir eingöngu skotvopnum og stáldrumbi til að brjóta upp hurðir.

Úr upptöku öryggismyndavélar í reiðufjárhirslum NOKAS. David Toska er lengst …
Úr upptöku öryggismyndavélar í reiðufjárhirslum NOKAS. David Toska er lengst til vinstri, Metkel Betew fyrir miðju. Hvítu armböndin um upphandleggi ræningjanna eru til minningar um „Baróninn“, William Ellingsen, náinn vin Toska sem var skotinn til bana í Ósló tveimur mánuðum fyrir ránið. Ljósmynd/NOKAS

Toska lýsti við réttarhöldin vonbrigðum sínum þegar hann áttaði sig á að gegnum þessa vörn brytist hann ekki nema ef til vill með bensínknúnum slípirokki sem ekki var til staðar, auk þess sem tíminn var strax að verða af skornum skammti eftir öryggisglerið.

Þeir peningar sem ræningjarnir komust í og höfðu á brott með sér reyndust þó 57,4 milljónir norskra króna (800 milljónir íslenskra króna miðað við gengi dagsins í dag, um 600 milljónir árið 2004). Feng sinn földu ræningjarnir svo kirfilega, áður en þeir voru handteknir, að enn er ekki vitað hvar stærsti hluti afraksturs NOKAS-ránsins er fólginn, rúmar tíu milljónir fundust en ræningjarnir skulda enn samkvæmt dómi 45,6 milljónir norskra króna. „Það er vonlaust. Þeir peningar verða aldrei greiddir til baka,“ sagði skotmaðurinn Schumann í viðtali við Stavanger Aftenblad fyrir tveimur árum.

Lögreglan lokuð inni á lögreglustöðinni

Á meðan David Toska og þeir sem fóru inn með honum fylltu töskur sínar illa fengnu fé braust út skotbardagi milli lögreglu og ræningja á Dómkirkjutorginu. Lögreglan í Stavanger komst ekki á vettvang fyrr en seint og um síðir þar sem ránshópurinn hafði nánast lokað hana inni í lögreglustöðinni við Lagårdsveien með því að leggja vörubifreið framan við inngang bílageymslu lögreglunnar og kveikja í bensínvættum dýnum í farmrými bifreiðarinnar. Einn af fyrstu lögreglumönnum á vettvang NOKAS-ránsins var því Fred Sherling úr útlendingaeftirlitsdeildinni sem hjólaði á reiðhjóli sínu frá lögreglustöðinni og niður í bæ vopnaður skammbyssu.

Greipar látnar sópa. Öryggisglerið kostaði ræningjana dýrmætan tíma auk þess …
Greipar látnar sópa. Öryggisglerið kostaði ræningjana dýrmætan tíma auk þess sem þeir gátu ekki brotið sér leið inn í rýmið þar sem 500 og 1.000 króna seðlarnir voru geymdir. Hárnákvæm tímaáætlun Toska var að fara út um þúfur og skotbardagi við lögreglu hafinn á Dómkirkjutorginu fyrir utan. Ljósmynd/NOKAS

Úr ránshópnum sátu þeir Audun Lystad og Johnny Thendrup grímuklæddir í Saab-bifreið úti á torginu og sló í brýnu milli þeirra og lögreglu. Thendrup varð þar fyrir skoti sem særði hann ekki alvarlega en Lystad var þegar dauðvona af krabbameini fyrir ránið og dró það hann til dauða áður en til réttarhaldanna kom. Toska leyfði honum að taka þátt í ráninu í þeirri von að Lystad gæti þá styrkt konu sína og barn með sínum hluta fengsins áður en hann yrði allur.

Klungland skotinn til bana

Klukkan um það bil stundarfjórðung yfir átta ók Arne Sigve Klungland, lögregluvarðstjóri á sextugsaldri, lögreglubifreið eftir Kongsgata, sem liggur að Dómkirkjutorginu. Schumann var þá aftur kominn í varðstöðu sína utan við NOKAS eftir að hafa skotið á öryggisglerið. Þarna fylltist þessi 38 ára gamli þrautreyndi afbrotamaður, „Skugginn“ sem svo var gjarnan nefndur vegna þess hve auðvelt honum reyndist að gjörbreyta útliti sínu, örvæntingu um að aðvífandi lögreglulið hefði að lokum hendur í hári ræningjanna og gerði að engu þaulhugsaða ránsáætlunina.

Hann mundaði AG-3-riffilinn og skaut fyrsta skotinu í framrúðuna hjá Klungland af um hundrað metra færi. Varðstjórinn sá sitt óvænna og reyndi að bakka en komst ekki lengra en að strætisvagni fyrir aftan sem stóð á móts við Maritime-hótelið við þrönga götuna sem er einkennandi fyrir miðbæinn í Stavanger.

Lögreglubifreiðin, sem Arne Sigve Klungland varðstjóri heitinn ók, sundurskotin framan …
Lögreglubifreiðin, sem Arne Sigve Klungland varðstjóri heitinn ók, sundurskotin framan við Maritime-hótelið við Kongsgata. Vatnaskil urðu í málinu þegar Kjell Alrich Schumann játaði loksins 27. september 2006 fyrir Lögmannsrétti Gulaþings, millidómstiginu, að hafa skotið átta skotum að bifreið Klungland úr AG-3-hríðskotariffli. Ljósmynd/Lögreglan í Stavanger

Alls skaut Schumann átta skotum áður en yfir lauk og hæfði eitt þeirra Klungland í höfuðið og lést hann nær samstundis. Ræningjarnir sem fóru inn í NOKAS-bygginguna voru nú komnir út og tróðu fullum íþróttatöskum af peningaseðlum inn í þrjá flóttabíla sem öllum hafði verið stolið dagana á undan. Brösuglega gekk að komast burt af vettvangi og lentu ræningjarnir í innbyrðis árekstri á tveimur af þremur bifreiðanna en óku að lokum allir út af torginu klukkan 08:19. Bílarnir fundust skömmu síðar í ljósum logum í Sørmarka, suðvestur af miðbænum í Stavanger, en þaðan höfðu ræningjarnir forðað sér í öðrum bílum sem biðu þeirra.

„Dauðaránið“

Tveir blaðamenn norska dagblaðsins VG, þeir Rolf J. Widerøe og Hans Petter Aass, skrifuðu um atburði 5. apríl 2004, ásamt for- og eftirmálum þeirra, bókina Dødsranet – David Toska og veien til NOKAS og köfuðu þar ítarlega ofan í rannsókn málsins sem er ein umfangsmesta sakamálarannsókn sem norsk lögregluyfirvöld hafa tekist á hendur, ef ekki sú umfangsmesta. Hundrað lögreglumenn unnu að rannsókninni á tímabili sem teygði sig allt til Málaga á Spáni og er upp var staðið hafði hún kostað 300 milljónir norskra króna, 4,1 milljarð íslenskra á gengi dagsins í dag.

Er í bókinni meðal annars greint frá því er lík bróður Erling Havnå, sleggjumannsins, var grafið upp til að bera saman DNA-sýni sem fundust á vettvangi við sýni sem tekin voru úr líki bróðurins sem hafði látist í köfunarslysi. Lögreglu grunaði þá að Havnå hefði komið að framkvæmd ránsins en hann var í felum og ekki til úr honum lífsýni.

Ljósmynd/Gyldendal Norsk Forlag

Einnig fannst erfðaefni David Toska á vettvangi þrátt fyrir að hann hefði brýnt fyrir sínum mönnum að gæta fyllsta öryggis um slíkt og rökuðu þeir af sér flest líkamshár þar sem þeir dvöldu í íbúð í Smeaheia-hverfinu í Sandnes, nágrannabæ Stavanger, dagana fyrir ránið og lokuðu ermum og buxnaskálmum með límbandi.

Það var þó Toska sjálfur sem einna fyrst voru borin kennsl á með DNA-prófum þar sem hann missti heyrnartól GSM-síma síns í ráninu og tókst sérfræðingum norsku rannsóknarlögreglunnar Kripos að bera kennsl á hann af örðu af eyrnamerg sem fannst á heyrnartólunum. Að lokum var Toska handtekinn í Málaga á Spáni sléttu ári eftir ránið, 5. apríl 2005, og játaði Björgvinjarbúinn þar að hann hefði skipulagt NOKAS-ránið og handvalið allan mannskapinn í það, maður sem hafði aldrei á 30 ára ævi unnið annað löglegt starf en að afgreiða hamborgara á Burger King í örfáa daga.

Hver er þessi Toska?

David Aleksander Toska fæddist í Bergen 18. september 1975, sonur læknis og háskólakennara í trúarbragðafræðum. Þrátt fyrir menntaða foreldra var það þó ekki fyrr en í fangelsi eftir NOKAS-ránið sem hugur Toska hneigðist til akademískrar iðju en þar lagði hann stund á stærðfræði og eðlisfræði enda tíminn nægur í kjölfar 18 ára dóms.

Hann greindi frá því fyrir dómi hvernig hann hefði ákveðið strax í barnaskóla að vinna fyrir sér með afbrotum. Þá kallaði skólabróðir hans á hann og sýndi honum vænan peningabunka, 21.000 norskar krónur, sem sá hafði stolið úr peningaskáp föður síns. Þar með var ferill næstu 20 ára í lífi Toska ráðinn. „Hvur fjandinn,“ sagðist hann hafa hugsað með sér, „ég hlýt að geta hugsað upp eitthvað svona!“

Það gat hann heldur betur. Toska varð þekktur fyrir þaulskipulögð rán og innbrot sem hann valdi sér samverkamenn í yfir margra mánaða tímabil og fluttu afbrotamenn jafnvel búferlum landshluta á milli í Noregi til að auka líkur sínar á að fá að vera með í verkefnum skipuleggjandans.

David Aleksander Toska í vettvangsgöngu með héraðsdómurum og lögreglu á …
David Aleksander Toska í vettvangsgöngu með héraðsdómurum og lögreglu á Dómkirkjutorginu í Stavanger þar sem hann lét við ellefta mann til skarar skríða gegn fjárhirslum NOKAS, Norsk Kontantservice, mánudagsmorguninn 5. apríl 2004. Ljósmynd/Wikipedia.org

Toska er auðvitað þekktastur fyrir NOKAS-ránið en gat sér orðstír í norskum undirheimum meðal annars með innbroti í lyfjageymsluna Norsk medisinaldepot í Ósló haustið 2000, en lögregla hafði reyndar fengið veður af undirbúningi innbrotsins gegnum öryggisvörð sem lak upplýsingum um aðstæður á vettvangi í Toska, en lék tveimur skjöldum og var um leið uppljóstrari lögreglunnar sem kom á vettvang í miðjum klíðum. Toska komst með naumindum undan.

Fylltu öryggiskerfi af vatni

Ári síðar braust hann inn í bankahvelfingu Gjensidige-bankans í Bryn í Ósló með hópi manna og notuðu þeir kjarnabor til að bora sig gegnum þykkan steinvegg eftir að hafa fyllt tengibox öryggisgæslunnar Falck af vatni svo stjórnstöð þar bárust í sífellu fölsk viðvörunarboð frá fjölda fyrirtækja í borginni, en ekki bankanum. Fengurinn nam tugum milljóna.

Haustið 2003 rændi hann svo ásamt hópi samverkamanna póstmiðstöð í Ósló þar sem miklir fjármunir voru geymdir og var háttsemi ræningjanna mjög gróf, hótuðu þeir starfsfólki með skotvopnum og hleyptu af alls tólf skotum inni í póstmiðstöðinni.

Hann var þá þegar löngu tekinn að leggja á ráðin um NOKAS-ránið en hugðist ekki reiða til höggs í Stavanger fyrr en haustið 2004. Toska flýtti hins vegar áætlunum sínum þegar William Ellingsen, hans besti vinur, „Baróninn“ svokallaði, var skotinn til bana í samkvæmi í Ósló 7. febrúar 2004 og var ránið tileinkað minningu hans.

Á upptökum úr öryggismyndavélum sjást ræningjarnir bera hvíta borða á vinstri upphandlegg sem voru sorgarbönd vegna Ellingsens en hann hafði áður tekið þátt í hinum fræga þjófnaði á Ópinu eftir Edvard Munch af Ríkislistasafninu í Ósló aðfaranótt 12. febrúar 1994 þegar lögregla borgarinnar var öll upptekin við öryggisgæslu fyrir setningarathöfn Vetrarólympíuleikanna í Lillehammer er dagur rynni.

Dómarnir fyrir NOKAS-ránið

Héraðsdómur Stavanger dæmdi í málinu 10. mars 2006, málið fór svo fyrir Lögmannsrétt Gulaþings og að lokum var einhverjum dómanna áfrýjað til Hæstaréttar sem felldi sinn dóm sumarið 2008. Einhverjir hlutu þar mildari dóma, David Toska hlaut að lokum 18 ár eftir að hafa hlotið 19 fyrir héraðsdómi. Hér að neðan má sjá hvernig dómar féllu í héraði:

David Aleksander Toska – 19 ár

Erling Havnå– 17 ár

Kjell Alrich Schumann – 16 ára varðveisla (n. forvaring)

Metkel Betew – 16 ára varðveisla

Lars-Erik Andersen – 15 ár

Alf Henrik Christensen – 13 ár

Ridvan Halimi – 16 ára varðveisla

Ikmet Kodzadziku – 15 ár

Dan Pettersen – 15 ár

Johnny Thendrup – 13 ár

Thomas Thendrup (bróðir hans) – 16 ára varðveisla

Thomas Oscar Ingebrigtsen – 4 ár

William Pettersen – 6 ár

Audun Lystad og Arve Einar Hansen létust áður en dómur gekk í þeirra hluta málsins, í máli fjögurra annarra var ekki ákært.

Þessi samantekt er byggð á bókinni Dødsranet auk 38 frétta norskra fjölmiðla frá 2004 til 2017.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert