Átök á landamærum vegna falsfréttar

Til átaka kom milli lögreglu og flóttamanna í Diavata-flóttamannabúðunum, skammt …
Til átaka kom milli lögreglu og flóttamanna í Diavata-flóttamannabúðunum, skammt frá grísku borginni Þessalóníku, í dag. AFP

Til átaka kom milli grísku lögreglunnar og hundraða flóttamanna sem hópuðust til borgarinnar Þessalóníku í þeirri von að komast yfir landamærin til Norður-Makedóníu.

Átökin brutust út eftir að orðrómur fór að dreifast í flóttamannabúðunum í Diavata þess efnis að landamærin yfir til Norður-Makedóníu yrðu opnuð. Orðróminn má rekja til færslu á Facebook þar sem því var haldið fram að skipulagðar ferðir yrðu yfir til Norður-Makedóníu frá Þessalóníku. Grískir miðlar segja að um falsfrétt sé að ræða. 

Lögreglan hefur hindrað aðgengi flóttamannanna, sem koma flestir frá Mið-Austurlöndum, að landamærunum og var táragasi beitt gegn flóttamönnum sem köstuðu steinum, trjágreinum og öðru lauslegu í átt að lögreglu.

Um 600 manns dvöldu í bráðabirgðabúðum sem komið var upp í grennd við Þessalóníku. 25 ára gamall kúrdískur flóttamaður. Bilal Jaf, sem blaðamaður BBC ræddi við í síma segir að ástandið í Diavata-búðum sé þrungið spennu. „Við óttumst að lögreglan leysi upp bráðabirgðabúðirnar okkar,“ segir Jaf, sem hefur beðið í ellefu mánuði eftir því að umsókn hans um hæli fái málsmeðferð.

Bráðabirgðabúðum var komið upp nálægt landamærum Grikklands og Norður-Makedóníu eftir …
Bráðabirgðabúðum var komið upp nálægt landamærum Grikklands og Norður-Makedóníu eftir að orðrómur fór að dreifast í flóttamannabúðunum í Diavata þess efnis að landamærin yfir til Norður-Makedóníu yrðu opnuð. AFP
Andrúmsloftið í Diavata-flóttamannabúðunum í grennd við grísku borgina Þessalóníku er …
Andrúmsloftið í Diavata-flóttamannabúðunum í grennd við grísku borgina Þessalóníku er spennuþrungið og til átaka kom milli lögreglu og flóttamanna í dag. AFP
mbl.is