„Landið okkar er fullt“

Donald Trump Bandaríkjaforseti gerði sér í dag ferð að landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó til að flytja skilaboð til þeirra sem væntanlegra innflytjenda. „Landið okkar er fullt“, sagði Trump er hann heimsótti bæin Calexico í Kaliforníu. „Kerfið er fullt og við getum ekki lengur tekið á móti ykkur. Þannig að snúið til baka, því þetta er staðan.“

AFP-fréttaveitan segir ferð forsetans að landamærunum vera ætlaða til að halda áfram þeim skilaboðum á lofti að „krísa“ ríki í innflytjendamálum, en Trump virðist ætla að halda því máli á lofti í kosningabaráttu sinni fyrir forsetakosningar 2020 líkt og hann gerði fyrir kosningarnar 2016.

Á fundi með landamæravörðum og öðrum embættismönnum í borginni sagði forsetinn ólöglega innflytjendur vera að fylla innflytjendakerfið og „við getum ekki leyft því að gerast,“ sagði hann.

Um 200 mótmælendur með risastóra blöðru í líki Trumps sem barns biðu forsetans í Mexicali, bænum hinum megin landamæranna. Héldu mótmælendur einnig á lofti fánum Bandaríkjanna og Mexíkó og skiltum með skilaboðum á borð við: „Hættið að skilja að fjölskyldur“ og „Ef þú byggir múr, þá  mun kynslóð mín rífa hann niður“.

Bandaríkjamegin landamæranna mátti sjá nokkra tugi manna fylgjast með bílalest Trumps og lýsa yfir stuðningi við forsetann. „Byggðu múrinn,“ stóð á einu skiltanna. 

Trump gaf í vikunni í skyn að hann hefði ekki lengur hug á að loka landamærum ríkjanna, líkt og hann hefur hótað að gera undanfarið, en þess í stað sagði hann 25% toll á innflutning bíla frá Mexíkó vera í spilunum takist ekki að koma böndum á fíkniefnasmygl og ferðir ólöglegra innflytjenda yfir landamærin. „Það getur vel verið að ég loki þeim einhvern tímann,“ sagði Trump um landamærin, „en ég vil heldur nota vörutolla“.

Donald Trump Bandaríkjaforseti í Calexico í dag. „Við getum ekki …
Donald Trump Bandaríkjaforseti í Calexico í dag. „Við getum ekki lengur tekið á móti ykkur,“ sagði Trump við væntanlega innflytjendur. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert