Demókratar fá ekki að sjá skattaskýrslu Trumps

Donald Trump Bandaríkjaforseti. Skattanefnd neðri deildar þingsins hefur farið fram …
Donald Trump Bandaríkjaforseti. Skattanefnd neðri deildar þingsins hefur farið fram á að fá skattaskýrslur forsetans afhentar. AFP

Þingmenn Demókrataflokksins munu aldrei fá afhentar skattaskýrslur Donald Trump Bandaríkjaforseta. Þetta sagði Mick Mulvaney, starfsmannastjóri Hvíta hússins í dag, og varðist þar með tilraunum Bandaríkjaþings til að fræðast frekar um persónuleg fjármál forsetans og aðkomu hans að fyrirtækjum Trump samsteypunnar. Reuters fréttaveitan greinir frá.

Það var Fox sjónvarpsstöðin sem spurði Mulvaney hvort að demókrötum muni takast að fá skattaskýrslur Trumps afhentar. „Aldrei,“ svaraði Mulvany. „Né heldur ættu þeir að fá þær.“

Hafnaði hann alfarið tilraunum þingsins til að nálgast skattskýrslurnar, en formleg beiðni var lögð fram á miðvikudag af Richard Neal, formanni skattanefndar fulltrúadeildarinnar. Sagði Mulvaney þetta vera pólitískt plott demókrata sem aldrei láti af árásum sínum á forsetann.

Demókratinn og einn nefndarmannanna, Dan Kildee, sagði í samtali við ABC sjónvarpsstöðina að krafan um skattaskýrslurnar væri fullkomlega lögleg. „Þetta er sá forseti sem við höfum haft sl. 50 ár sem sýnir hvað minnst  gagnsæi,“ sagði Kildee. „Það er ekki Trumps forseta, eða einhvers lögfræðings sem hann ræður að ákveða „hvort að skattaskýrslur hans verði afhentar,“ bætti hann við. „Þetta er ekki einræðisríki og forsetinn ákveður ekki fyrir sig og þingið hvaða lögmætu viðfangsefni þingið taki fyrir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert