Garfieldsímum skolar á land

Í meira en þrjátíu ár hefur appelsínugulum Grettissímum (Garfield) skolað á land í Finistère á Bretagenskaganum í Frakklandi. Hingað til hefur enginn vitað hvaðan símarnir koma með fullri vissu en ýmsa íbúa grunaði að þeir kæmu úr gámi sem féll af flutningaskipi á níunda áratugnum. Það var hins vegar ekki vitað með fullri vissu fyrr en nú.

Claire Simonin, sem stýrir starfi hreinsunarhópsins Ar Viltansoù á Bretagne, segir að hópurinn hafi í 18 ár gengið strandlengjuna í Finistére og plokkað. Nánast í hvert skipti hafi þau gengið fram á Garfield síma á ströndinni. Stundum einn, stundum fleiri.  

Nýlega greindi íbúi á svæðinu frá því að hann hafi fundið gám í sjávarhelli sem aðeins er hægt að komast að í mikilli fjöru. Simonin segir félaga í hópnum hafi farið eftir leiðbeiningum mannsins og fundið hellinn en hann er 30 metrar að dýpt og neðst í honum sé gámurinn. Hún segir að það sé mjög hættulegt að fara þangað og biður almenning um að reyna það alls ekki. Við hellismunnann fundu þau 23 Garfield síma. „Þeir voru alls staðar,“ segir hún.

mbl.is