Þingið bíður meðan Barr strikar út

Mótmælendur á Times Square í New York á föstudag, krefjast …
Mótmælendur á Times Square í New York á föstudag, krefjast þess að skýrsla Muellers verði birt. AFP

Rannsakendur Robert Muellers, sérstaks saksóknara FBI eyddu mánuðum í að reyna að fá svör frá Donald Trump Bandaríkjaforseta um hvort og þá hvernig honum hefði verið kunnugt um fundi starfsmanna framboðs síns með Rússum. Mueller óskaði einnig svara um það það hvort að breytingar á stjórn Repúblikanaflokksins hefðu verið hugsaðar til að gera flokkinn vinveittari Rússum, sem og um tengsl náins aðstoðarmanns forsetans við uppljóstrunarsíðuna WikiLeaks og birtingu síðunnar á tölvupóstum sem stolið var frá Demókrataflokkinum.

Eftir  margra mánaða andóf skilaði forsetinn loks skriflegum svörum og fyrir stuttu síðan skilaði Mueller loks inn skýrslu sinni um meint afskipti rússneskra ráðamanna af bandarísku forsetakosningunum og tengsl þeirra við framboð forsetans.

Dómsmálaráðherrann William P. Barr afhenti Bandaríkjaþingi skömmu síðar fjögurra blaðsíðna útdrátt úr skýrslunni þar sem fram kemur að  ekki hafi verið óeðli­leg eða ólög­mæt sam­skipti milli fram­boðs Trump og rúss­neskra stjórn­valda í aðdrag­anda kosn­ing­anna. Mueller hreinsaði forsetann í skýrslunni ekki af því að hafa hindrað framgang réttvísinnar. Dómsmálaráðherrann sagði hins vegar í útdrætti sínum að ekki væru nægar sannanir fyrir sekt Trumps.

Skýrslan sjálf, sem er 400 blaðsíður að lengd, hefur hins vegar ekki verið gerð opinber ennþá og vinna Barr og aðstoðarmenn hans nú að því að strika yfir þá hluta skýrslunnar sem ekki má gera opinbera.

Ráðherrann hefur heitið að afhenda þinginu jafn mikið af skýrslunni og hægt sé og það verði gert í síðasta lagi um miðjan apríl, en hversu stór hluti skýrslunnar það verður veltur á því hversu víð eða þröng túlkun Barr er á því hverju þarf að sleppa.

Dagblöðin New York Times og Washington Post hafa greint frá því að sumir rannsakendanna séu ósáttir við þá mynd sem Barr hafi dregið upp af niðurstöðum skýrslunnar og segja ákveðna spennu hafa verið milli starfsmanna Muellers og þeirra starfsmanna Barr sem nú hafa umsjón með skýrslunni.

Donald Trump Bandaríkjaforseti, dómsmálaráðherrann William Barr og Robert Mueller, sérstakur …
Donald Trump Bandaríkjaforseti, dómsmálaráðherrann William Barr og Robert Mueller, sérstakur saksóknari FBI. AFP

Minnst á trúnaðargögn á hverri síðu

Demókratar á þingi hafa krafist þess að fá að sjá skýrsluna í heild sinni og hafa lýst yfir vaxandi óþolinmæði í garð Barr. Reuters-fréttaveitan hefur hins vegar eftir Kerri Kupec, talskonu dómsmálaráðuneytisins, að þar sem standi á hverri einustu blaðsíðu skýrslunnar að hún innihaldi mögulega trúnaðarmál, þá hafi Barr ákveðið að birta fyrst útdráttinn.

„Dómsmálaráðuneytið heldur áfram að vinna með sérstökum saksóknara að nauðsynlegum breytingum svo hægt sé að birta þinginu og almenningi skýrsluna sem fyrst,“ sagði Kupec í yfirlýsingu.

New York Times segir fyrsta hlutann sem Barr strikar yfir vera þann hluta sem snýr að leynilegum upplýsingum ætluðum kviðdómi, en samkvæmt alríkislögum má ekki gera slík gögn, til að mynda vitnisburð, opinber, né heldur að hvort þær upplýsingar fengust með vitnastefnu.

Blaðið hefur eftir heimildamanni að sá hluti rannsóknarinnar sem snýr að því hvort að forsetinn hafi gerst sekur um að hindra framgang réttvísinnar byggi að mestu á upplýsingum sem fengust með frásögnum vitna og verði því líklega ekki opinberaður, nema dómari skipaði ráðherra að slíkt.

Leyniþjónustuhlutinn ritskoðaður

Annar hlutinn sem skýrslunnar sem Barr hefur sagt þurfa að ritskoða er efni sem leyniþjónustustofnanir skilgreina sem svo að birting þess ógni viðkvæmum heimildamönnum eða rannsóknaraðferðum.

Mueller hefur þegar birt ákveðna hluta rannsóknar sinnar, til að mynda með ákærum á hendur rússneskum ríkisborgurum fyrir tilraunir til að hafa áhrif á bandaríska samfélagsmiðla og fyrir þjófnað á tölvupóstum demókrata. New York Times segir hins vegar hér um bil öruggt að Mueller hafi komist að meiru en fram kemur í dómsskjölunum, m.a. upplýsingum sem gætu svipt hulunni af heimildum bandarískra leyniþjónustustofnanna um innra starf rússnesku stjórnarinnar.

Segir New York Times að þó að þingið í heild hafi heimild til að fá aðgang að trúnaðarupplýsingum, kunni Barr engu að síður að reyna að koma í veg fyrir leka með því að leyfa eingöngu njósnanefnd þingsins, eða jafnvel bara formönnum nefndarinnar, að fá aðgang að hluta gagnanna.

Ráðherrans að ákveða hverjir teljast á jaðrinum

Þriðji hlutinn sem Barr hefur sagt ekki verða gerðan aðgengilegan þinginu er efni sem getur haft áhrif á rannsóknir sem ekki heyri undir rannsókn sérstakssaksóknara og sem þegar hafa verið send áfram til annarra deilda. Slíkt hafi til að mynda verið gert varðandi mál Michael Cohen, fyrrverandi lögfræðing Trumps.

Þá hafi einnig orðið til við rannsóknina önnur mál, sem enn er ekki búið að ljúka rannsókn á og sem sérstakur saksóknari er því enn með í vinnslu og slíkt á til að mynda við um mál Roger J. Stone, ráðgjafa Trumps til langs tíma.

Fjórði flokkurinn sem Barr hefur sagst munu ritskoða eru „upplýsingar sem muni með ótilhlýðilegum hætti brjóta gegn persónuvernd og mannorði einstaklinga sem séu á jaðri rannsóknarinnar“.

New York Times segir dómsmálaráðuneytið almennt ekki gera opinberar upplýsingar um einstaklinga sem saksóknarar hafa verið með til rannsóknar, en sem ekki eru síðan ákærðir. Segir blaðið það hins vegar verða Barr að ákveða að þessu sinni hverjir teljist tilheyra kjarna rannsóknarinnar og hverjir teljist á jaðri hennar.

mbl.is