Fara fram á þunga refsingu yfir Norðmanni

Frá Moskvu.
Frá Moskvu. AFP

Rússneskur saksóknari fór fram á að Norðmaður sem hef­ur verið sakaður um að hafa njósnað um kjarn­orkukaf­báta Rússa verði dæmdur í 14 ára fangelsi.

Saksóknarinn Milana Digayeva fer fram á að Norðmaðurinn Frode Berg taki refsingu sína út í vinnubúðum þar sem fangar vinna erfiðisvinnu.

Búist er við niðurstöðu dóms eftir viku.

Berg, sem er 63 ára, var handtekinn í Moskvu árið 2017 eftir leynilega aðgerð rússnesku leyniþjónustunnar FSB.

Mikil leynd hvílir yfir dómsmálinu og fer það fram fyrir luktum dyrum. Samkvæmt frétt AFP neitar Berg sök.

Fyrr­ver­andi rúss­nesk­ur emb­ætt­ismaður hafði áður verið ákærður fyr­ir að af­henda Berg skjöl um rúss­neska sjó­her­inn og hlaut hann þrett­án ára fang­els­is­dóm í des­em­ber.

Berg játaði að hafa starfað sem sendill fyrir norsku leyniþjónustuna í nokkur skipti en kvaðst ekkert vita frekar um sendingarnar.

Fram kem­ur í frétt AFP, að sam­skipti rúss­neskra og norskra stjórn­valda hafi verið góð í gegn­um tíðina en þau versnuðu til muna árið 2014 þegar Rúss­ar hófu hernaðaraðgerðir í Úkraínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert