Kosningar hafnar í Ísrael

AFP

Kjörstaðir hafa verið opnaðir í Ísrael en afar mjótt er á munum milli tveggja stærstu flokka landsins. 

Forsætisráðherra landsins, Benjamin Netanyahu, leiðtogi Likud-flokksins á hægri vængnum sækist eftir endurkjöri í fimmta skiptið en hart er sótt að honum af Benny Gantz sem er leiðtogi Blárra og hvítra á þeim vinstri. Netanyahu er einnig sakaður um spillingu og á yfir höfði sér ákæru. 

Benny Gantz.
Benny Gantz. AFP

Um sex milljónir eru á kjörskrá og kosningaþátttaka í Ísrael er oftast mikil. Kosningabaráttan hefur harðnað síðustu vikur. Netanyahu hefur gegnt embættinu frá 2009 og einnig á árunum 1996-1999. Hann og Donald Trump Bandaríkjaforseti eiga í ágætu vinfengi og Netanyahu hefur látið hafa eftir sér í viðtölum að ekki sé útilokað að á næsta kjörtímabili fái hann stuðning Trumps til þess að innlima landtökubyggðir á Vesturbakkanum. 

Benny Gantz var forseti ísraelska herráðsins, sem aflar honum vinsælda. Hann er leiðtogi Bláa og hvíta flokksins, sem hann stofnaði í febrúar á þessu ári með sjónvarpsmanninum Yair Lapid. Gantz naut virðingar sem hermaður og var meðal annars lofaður af sjálfum Netanyahu á sínum tíma sem „framúrskarandi foringi“ en forsætisráðherrann lýsir núna keppinaut sínum sem „veiklunduðum vinstrimanni“, segir í umfjöllun Al Jazeera um kosningabaráttuna, að því er fram kom í Morgunblaðinu í gær.

Benjamin Netanyahu.
Benjamin Netanyahu. AFP

Alls eru 120 þingsæti á ísraelska þinginu, Knesset, og má búast við fyrstu tölum klukkan 19 að íslenskum tíma. Talið er fullvíst að strax þá hefjist viðræður millli flokka um að mynda ríkisstjórn en ekki er talinn möguleiki á að einn flokkur fái meirihluta á þingi.

mbl.is