Biskup ákærður fyrir nauðganir

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. AFP

Indverska lögreglan ákærði í gær kaþólskan biskup fyrir að hafa nauðgað nunnu ítrekað í Kerala-héraði og hefur málið beint kastljósinu enn á ný að kynferðislegu ofbeldi innan kaþólsku kirkjunnar.

Franco Mulakkal er ákærður fyrir að hafa nauðgað nunnu ítrekað á tveggja ára tímabili, 2014-2016. K. Subash, aðstoðar-yfirlögregluþjónn í Kerala greindi fréttamönnum frá þessu í gær. Hann er einnig ákærður fyrir að hafa haldið henni gegn vilja hennar, að hafa neytt hana til óeðlilegra kynmaka og misnotkun. Mulakkal, sem á yfir höfði sér allt að lífstíðarfangelsi, neitar sök.

Ákæran byggir á yfir 100 blaðsíðna langri skýrslu og er þar að finna yfirlýsingar frá nunnum, prestum og öðrum biskupum. Þolandinn lagði fram kæru í júní í fyrra en lögregla hóf ekki rannsókn á málinu fyrr en í september og þá aðeins vegna mikils þrýstings og reiði meðal almennings og annarra. 

Til að mynda tóku nunnur þátt í mótmælum ásamt öðru trúuðu fólki þar sem þess var krafist að málið yrði rannsakað. Mulakkal var handtekinn í október en látinn laus gegn tryggingu. Háttsettir einstaklingar innan kaþólsku kirkjunnar á Indlandi hafa stutt biskupinn og þegar hann sneri aftur til starfa fögnuðu þeir ákaft.  

Kynferðislegt ofbeldi af hálfu kirkjunnar þjóna og það hversu lítið er að gert hefur tengt kaþólsku kirkjuna við ótalmörg hneykslismál undanfarin ár. Frans páfi ræddi kynferðislegt ofbeldi presta gagnvart nunnum í fyrsta skipti í febrúar og hét því að Páfagarður myndi taka slíkar ásakanir alvarlega. Bæði hvað varðar kynferðislega misnotkun og kynlífsþrælkun þeirra.

AFP-fréttastofan hefur eftir einni af nunnunum sem hefur staðið við hlið þeirrar sem varð fyrir ofbeldinu að hún sé þakklát fyrir að biskupinn sé loksins ákærður. Enginn hafi staðið með þeim innan kirkjunnar fyrir utan Jesúm. „Ekkert annað en sannleikurinn var á okkar bandi.“

Hún segir að þegar yfirmenn kirkjunnar hafi áttað sig á því að þær myndu ekki gefa sig hafi þeir borið ljúgvitni gegn fjölskyldum þeirra. Þar á meðal að þær hafi hótað Franco Mulakkal lífláti. Ekkert annað hafi verið í boði en að leita til lögreglunnar og leggja fram kæru á hendur biskupnum. „Hvað annað gátum við gert,“ segir hún í samtali við AFP-fréttastofuna.

Lögreglan er nú að rannsaka fjögur önnur mál tengd ofbeldi og kúgunum fjögurra presta í Kerala en þeir eru sakaðir um að hafa neytt konur til kynmaka þegar þær komu til þeirra að skrifta. 

Kristni, þar af flestir kaþólskir, er þriðju stærstu trúarbrögðin á Indlandi. Um 80% þjóðarinnar eru hindúar en næstir koma múslimar.

mbl.is