Bjóða Bretum frest til 31. október

May hefur sagt að hún vilji fyrir alla muni ganga …
May hefur sagt að hún vilji fyrir alla muni ganga úr Evrópusambandinu fyrir 22. maí næstkomandi. Bretum hefur verið boðinn sex mánaða viðbótarfrestur til þess að klára sín mál og ganga úr Evrópusambandinu með samning. AFP

Leiðtogar Evrópusambandsins hafa boðið Bretum sex mánaða viðbótarfrest til þess að ganga úr Evrópusambandinu, að því er virðist til þess að forða því að Bretar gangi út án samnings á föstudagskvöld.

Ef Theresa May forsætisráðherra Bretlands samþykkir þennan viðbótarfrest, sem er til 31. október og Bretar verða enn í Evrópusambandinu eftir 22. maí næstkomandi, munu breskir kjósendur þurfa að taka þátt í kosningum til Evrópuþingsins, samkvæmt frétt AFP um málið. Það vilja Bretar forðast og Theresa May hefur sagt að hún vonist til þess að Bretland verði farið úr sambandinu fyrir þann tíma.

Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, greindi frá því á Twitter-síðu sinni fyrir skemmstu að leiðtogar 27 Evrópusambandsríkja hefðu sammælst um að framlengja þann tímaramma sem var gefinn er Bretar virkjuðu 50. grein sáttmála Evrópusambandsins.

Macron þurfti að lúffa - og þó?

Evrópuleiðtogar hafa verið að funda í Brussel og reynt að koma sér saman um það hversu langan tíma ætti að gefa Bretum til þess að komast að niðurstöðu. Samkvæmt frétt AFP voru flestir leiðtoganna, þeirra á meðal Angela Merkel kanslari Þýskalands, tilbúnir að fresta Brexit um allt að ár.

Macron Frakklandsforseti mætir til fundarins í Brussel í dag.
Macron Frakklandsforseti mætir til fundarins í Brussel í dag. AFP

Emanuel Macron Frakklandsforseti var þó á móti því að Bretum yrði veittur langur frestur og vildi hann ásamt leiðtogum Belga, Austurríkismanna og fleiri smærri aðildarríkja að fresturinn yrði einungis nokkrar vikur.

Að lokum varð Macron þó að komast að málamiðlun, samkvæmt frétt AFP, um að frestur Breta yrði endurskoðaður á leiðtogafundi Evrópusambandsins 21. júní næstkomandi.

AFP greinir einnig frá því, að í skiptum fyrir að Macron sætti sig við aukinn frest til handa ríkisstjórn Theresu May, hefði hann náð fram samkomulagi um að Bretar myndu ekki fá að beita sér innan Evrópusambandsins meðan á þessum viðbótarfresti stæði.

Fréttir af því síðastnefnda eru þó fremur óskýrar, enn sem komið er.

Bein textalýsing BBC frá Brussel

Frétt New York Times um málið.

Donald Tusk, Theresa May og Angela Merkel á fundi leiðtoga …
Donald Tusk, Theresa May og Angela Merkel á fundi leiðtoga Evrópusambandsins í Brussel í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert