„Ég stakk hann til bana“

Makaveli Lindén á ljósmyndum sænsku lögreglunnar en hann á að …
Makaveli Lindén á ljósmyndum sænsku lögreglunnar en hann á að baki fjölda refsidóma í Svíþjóð þar sem hann sat inni þar til í ágúst í fyrra. Ljósmynd/Sænska lögreglan

Hinn tvítugi Makaveli Lindén kom til Óslóar í nótt, aðfaranótt miðvikudags, eftir að frönsk yfirvöld féllust á kröfu Noregs um framsal hans. Lindén hefur setið í gæsluvarðhaldi í Dijon síðan hann var handtekinn þar 23. október eftir eltingarleik sem náði frá Ósló, gegnum Svíþjóð og Belgíu til Frakklands þar sem frönsku lögreglunni tókst að miða út merki frá síma hans og handtók hann á lestarstöð í kjölfar þess að hann hafði í nokkra daga verið eftirlýstur um allan heim.

Málið hófst þegar hinn 24 ára gamli fyrrverandi knattspyrnumaður Heikki Bjørk­lund Paltto var myrtur með 20 hnífstungum um hádegisbil mánudaginn 15. október á heimili sínu í Majorstuen-hverfinu í Ósló.

Vakti málið mikinn óhug í borginni, ekki síst í ljósi þess að hrein tilviljun hafði augljóslega ráðið vali á fórnarlambi en vitni bar síðar að maður, sem það þekkti af mynd sem Lindén, hefði bankað upp á annars staðar í borginni nóttina fyrir ódæðið og beðið um vatnsglas.

Myndir úr eftirlitsmyndavél á lestarstöðinni í Tøyen vörpuðu grun á Lindén en vitni, sem hafði séð hann koma alblóðugan út úr húsi í Majorstuen og setjast á blómaker, gat gefið nokkuð greinargóða lýsingu á honum. Bar lögregla fljótlega kennsl á hann sem Makaveli Lindén, áður Christian Bo Lindén, sænskan ríkisborgara sem hafði marga fjöruna sopið í heimalandi sínu og hlotið þar dóma fyrir þjófnað, fíkni­efna­brot og fleira. Lindén var lát­inn laus til reynslu í ág­úst í fyrra þrátt fyr­ir tíu aga­brot í sænsku fang­elsi.

Skömmu eftir að franska lögreglan klófesti Lindén fannst 58 ára gamall sænsk-þýskur fatahönnuður, Johanna Jostameling, látin í íbúð sinni í belgíska bænum Mechelen og var aðkoman hrottaleg en konan hafði legið örend á heimili sínu í þrjá sólarhringa áður en hún fannst. Verklagið var það sama og í Ósló, hún hafði verið stungin ítrekað en engu stolið af heimili hennar gátu ættingjar staðfest.

Norska rannsóknarlögreglan Kripos sendi þegar yfirheyrsluteymi til Dijon til að yfirheyra hinn handtekna og játaði hann fljótlega að hafa myrt Paltto í Ósló auk þess að ræna mann í sama hverfi með hnífinn á lofti.

Töluverðan tíma tók að fá Lindén framseldan til Noregs en belgísk lögregla hefur haft uppi kröfur um að fá aðgang að honum og hyggst nú senda hóp lögreglumanna til Óslóar. Enn hefur Lindén neitað að segja eitt aukatekið orð um gjörðir sínar í Belgíu.

Fjögurra vikna gæsluvarðhald

Það var svo klukkan eitt í dag að norskum tíma sem Lindén var leiddur í dómsalinn hjá Åsa Gjesdal Bech héraðsdómara við Héraðsdóm Óslóar þar sem þinghald um gæsluvarðhaldskröfu lögreglu hófst. Almennt er norskum fjölmiðlum ekki heimilt að birta beinar frásagnir af gæsluvarðhaldsþinghöldum en dómstóllinn heimilaði það í dag eftir að fulltrúar dagblaðsins VG höfðu sótt það af miklum þunga.

Lindén gekk í salinn, klæddur brúnum buxum og rauðri háskólapeysu með Adidas-merki. Hann virtist var um sig og skyggndist til allra átta en var annars rósemin uppmáluð.

Bech héraðsdómari spurði hann nokkurra spurninga, meðal annars um fangelsisvistina í Frakklandi, en vék sér að lokum að úrslitaspurningunni af alvöruþunga og spurði hver afstaða hans væri til sektar hans í máli Paltto heitins.

„Ég stakk hann til bana,“ svaraði Lindén dómaranum samviskusamlega og var í kjölfarið úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald.

Honum hefur verið skipaður verjandinn Øyvind Storrvik sem fylgdi skjólstæðingi sínum til þinghaldsins í dag. „Honum þykir gott að vera kominn til Noregs, hann hefur óskað eftir því að fá að koma hingað allar götur síðan hann játaði [í haust],“ sagði Storrvik í samtali við norska ríkisútvarpið NRK í héraðsdómi í dag. 

Christian Hatlo, lögmaður lögreglunnar, sagði að nú hæfust yfirheyrslur á ný hjá norskri lögreglu. „Okkur er það mjög mikilvægt að fá að yfirheyra sakborninginn aftur svo fljótt sem verða má,“ sagði Hatlo.

Gunhild Lærum, réttargæslumaður móður Heikki Bjørk­lund Paltto heitins, var einnig viðstödd í dag. „Móðir hans veit af þessu þinghaldi í dag og fær að fylgjast með framvindu mála. Henni er auðvitað mjög þungt en gleðst yfir að árásarmaðurinn hafi náðst,“ sagði Lærum.

Lindén bíður nú örlaga sinna í Ila-fangelsinu í Bærum í Akershus þar sem hættulegustu fangar landsins eru vistaðir en þar sat fjöldamorðinginn Anders Behring Breivik meðal annars fram til haustsins 2013 er hann var fluttur í fangelsið í Skien.

NRK

VG

TV2

Aftenposten

Dagbladet

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert