Segjast ekki eiga í viðræðum við stjórnvöld

Jamal Khashoggi var myrtur á ræðismannaskrifstofu Sádi-Arabíu í Tyrklandi í …
Jamal Khashoggi var myrtur á ræðismannaskrifstofu Sádi-Arabíu í Tyrklandi í október. AFP

Fjölskylda blaðamannsins Jamals Khashoggi, sem myrtur var á ræðismannaskrifstofu Sádi-Arabíu í Tyrklandi, segir rangt að hún eigi í viðræðum við sádiarabísk stjórnvöld um að leysa málið með sátt og utan dómstóla. Þann 1. apríl birti Washington Post frétt um að börn Khashoggis hefðu þegið mútur og fengið glæsihús og þúsundir dollara á mánuði í greiðslur frá yfirvöldum. „Eins og staðan er þá munu réttarhöldin fara fram og engar viðræður um dómssátt eru í gangi eða hafa verið í gangi,“ skrifaði Salah Khashoggi, sonur blaðamannsins, á Twitter. 

Khashoggi skrifaði greinar í Washington Post. Í þeim gagnrýndi hann sádiarabísk stjórnvöld. Í október var hann myrtur og lík hans sundurlimað á ræðismannaskrifstofu Sádi-Arabíu í Istanbúl í Tyrklandi. Fram hefur komið að fimmtán útsendarar stjórnvalda í Sádi-Arabíu hafi átt hlut að máli. Lík hans hefur enn ekki fundist. 

Mohammed bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu, hefur verið sakaður um að hafa skipulagt tilræðið. Niðurstaða rannsóknar sem gerð var í heimalandi hans var sú að hann væri saklaus af slíku.

Neituðu öllu í fyrstu

Þegar upp komst að Khashoggis væri saknað og grunur vaknaði að hann hefði verið myrtur neituðu stjórnvöld í Sádi-Arabíu því að hafa nokkra vitneskju um málið. Þau kenndu síðar hópi manna, sem staðið hafði stjórnvöldum nærri, um verknaðinn. Ríkissaksóknari í Sádi-Arabíu hefur ákært ellefu manns fyrir morðið.

Salah Khashoggi staðfestir hvorki né neitar í yfirlýsingu sinni að hafa þegið fjármuni eða annað frá konungi eða krónprinsi Sádi-Arabíu. 

Greiðslur fyrir þögn

 Í frétt Washington Post sagði að greiðslur til fjögurra barna Jamals Khashoggi, tveggja sona og tveggja dætra, væru hluti af viðleitni stjórnvalda í Sádi-Arabíu að ná samkomulagi við fjölskyldu blaðamannsins og til að fá þau til að tjá sig ekki opinberlega um málið. 

 Að minnsta kosti sjö rithöfundar og bloggarar, þeirra á meðal tveir Bandaríkjamenn, voru handteknir í Sádi-Arabíu á föstudag, að því er mannréttindasamtök segja. Handtökurnar voru gerðar daginn eftir að bandarískir þingmenn samþykktu að hætta stuðningi við hernað Sáda í Jemen. 

mbl.is