Búið að handtaka Assange

Julian Assange, stofnandi WikiLeaks, sést hér á svölum sendiráðs Ekvadors …
Julian Assange, stofnandi WikiLeaks, sést hér á svölum sendiráðs Ekvadors í London. AFP

Búið er að handtaka Ju­li­an Assange, stofn­anda uppljóstrunarsíðunnar Wiki­Leaks. BBC hefur eftir Lundúnalögreglunni að Assange hafi verið hnepptur í varðhald og að hann muni koma fyrir dómara í Westminister jafn fljótt og auðið er.

Guardian hefur eftir Lundúnalögreglunni að Assange hafi verið handtekinn í sendiráði Ekvador þar sem hann hefur dvalist frá árinu 2012. Í yfirlýsingu frá lögreglu segir að „Lundúnalögreglan hafði sinnt þeirri skyldu sinni að framkvæma handtökubeiðni af hálfu dómstólsins í Westminister. Sendiherra bauð lögreglu inn í sendiráðið í kjölfar þess að ríkisstjórn Ekvador afturkallaði hælisveitingu sína.“

Segir lögregla Assange vera handtekinn fyrir að neita að koma fyrir dómara.

„Tæpum sjö árum eftir að hann fór inn í sendiráð Ekvador, þá get ég staðfest að Julian Assange er nú í haldi lögreglu,“ sagði Sajid Javid, innanríkisráðherra Bretlands á Twitter, og þakkaði ríkisstjórn Ekvador fyrir samstarfi og Lundúnalögreglunni fyrir fagmennsku. „Enginn stendur ofar lögum,“ bætti hann við.

 

 

Þá þakkaði Jeremy Hunt, utanríkisráðherra Bretlanda, Ekvador á Twitter fyrir og sagði Assange ekki vera neina „hetju“ og að enginn væri ofar lögum.

„Hann hefur falið sig fyrir sannleikanum árum saman. Takk Ekvador og Lenín Moreno forseti fyrir samstarf ykkar við utanríkisráðuneytið við að tryggja að Assange komi fyrir dóm,“ sagði Hunt.

 

 

Sögðu búið að semja um handtöku Assange

WikiLeaks greindi frá því í síðustu viku að til stæði að vísa Assange úr sendi­ráði Ekvador í London inn­an skamms. Fullyrti WikiLeks þá og hafði eftir heim­ildamanni inn­an ríkistjórn­ar Ekvador að stjórn­völd í Ekvador væru þegar búin að semja við bresk stjórn­völd um hand­töku hans.

Blaðamaðurinn John Pilger, sem er mikill stuðningsmaður Assange hvatti í kjölfarið fólk til að mótmæla fyrir utan sendiráðið og til að sýna "samstöðu með hugrökkum manni.“

Assange leitaði hælis í sendiráðinu árið 2012 þegar sænsk yfirvöld gáfu út handtökubeiðni á hendur honum vegna nauðgunarákæru og fóru fram á að fá hann framseldan til Svíþjóðar. Það mál hefur síðan verið fellt niður.  

Bandarísk yfirvöld hafa aldrei opinberlega staðfest að þau hafi ákært Assange, en í nóvember á síðasta ári birtist nafn hans fyrir mistök í dómsskjali alls óskyldu hans máli. Hafa stuðningsmenn Assange sagt það gefa til kynna að kæra gegn honum hafi verið lögð fram með leynd. 

Lögreglubíll utan við sendiráð Ekvador í London í dag eftir …
Lögreglubíll utan við sendiráð Ekvador í London í dag eftir að Assange var handtekinn. AFP

Moreno vildi Assange burt

Lenín Mor­eno, sem var kjörinn forseti Ekvador 2017, hef­ur ekki farið leynt með löng­un sína til þess að losna við Assange úr sendi­ráðinu, en AP-frétta­veit­an greindi frá því fyrir skömmu að hann kenndi Wiki­Leaks um spill­ing­arásak­an­ir á hend­ur sér og birt­ingu á fjöskyldu­mynd­um sín­um.

Wiki­Leaks hef­ur hins veg­ar sagt ásak­an­ir Mor­enos vera „al­gjör­an til­bún­ing“ og ætli Mor­eno sér að svipta Assange hæl­inu ólög­lega til að dylja spill­ing­ar­mál þá „eigi sag­an ekki eft­ir að fara um hann mild­um hönd­um“.

Moreno  sagði í dag að Ekvador hefði svipt Assange pólitísku hæli eftir ítrekuð brot hans á alþjóða sáttmálum.

WikiLeaks svaraði því hins vegar til á Twitter að ráðamenn í Ekvador hefðu með ólöglegum hætti svipt Assange pólitísku hæli og að með þvi hefðu þeir brotið alþjóða lög.Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is

Bloggað um fréttina