Reyna að losna við May

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, stendur höllum fæti innan eigin flokks.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, stendur höllum fæti innan eigin flokks. AFP

Þingmenn í röðum breska Íhaldsflokksins vinna að því að reyna að koma Theresu May, forsætisráðherra og leiðtoga flokksins, frá völdum með því að breyta reglum hans. Þar segir að ekki sé hægt að lýsa yfir vantrausti á leiðtoga flokksins fyrr en tólf mánuðir eru liðnir frá því að hann stóðst slíkt vantraust síðast.

Þingmenn Íhaldsflokksins greiddu atkvæði um vantraust á May í desember þar sem þriðjungur þeirra lýsti yfir vantrausti á hana. Þó May hafi staðist vantraustið þótti sigurinn ekki nógu afgerandi. Talið er að síðan hafi stuðningur við hana innan þingflokksins farið hratt minnkandi. Einkum eftir að hún hóf viðræður við Jeremy Corbyn, leiðtoga Verkamannaflokksins, um mögulega lausn vegna fyrirhugaðrar útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu sem gæti falið í sér áframhaldandi veru landsins í tollabandalagi sambandsins sem er stefna flokks Corbyns.

Fjöldi þingmanna Íhaldsflokksins er sagður hafa haft samband við formenn aðildarfélaga flokksins samkvæmt frétt breska dagblaðsins Daily Telegraph og hvatt þá til þess að safna undirskriftum til þess að breyta umræddri reglu, en samkvæmt reglum hans er það hægt fari 10 þúsund flokksmenn fram á það.

Kosningaafhroð varpi ekki skugga á nýjan leiðtoga

Gripið var til þessa ráðs eftir að hópur háttsettra þingmanna Íhaldsflokksins ákváðu að fara ekki gegn May fyrr en eftir sveitarstjórnarkosningar í Bretlandi 2. maí og kosningar til Evrópuþingsins 23. maí til þess að líklegt afhroð í þeim varpaði ekki skugga á mögulegan nýjan leiðtoga flokksins. Slíkt afhroð gæti að þeirra mati ennfremur verið það sem þurfi til þess að koma May frá völdum.

Ljóst þykir að mikil og vaxandi andstaða sé við forystu May bæði innan þingflokks Íhaldsflokksins og meðal almennra flokksmanna. Ástæðan fyrir óánægjunni með hana er einkum hvernig hún hefur haldið á málum varðandi útgönguna úr Evrópusambandinu. Nú síðast samþykkti May að fresta henni þar til í lok október.

Fjöldi almennra flokksmanna hefur til að mynda neitað að taka þátt í kosningabaráttu flokksins, meðal annars með því að ganga í hús með kosningabæklinga og ræða við kjósendur, og ýmsir fjárhagslegir bakhjarlar flokksins hafa neitað að styðja hann.

mbl.is