Þjóðin mátt þola „óstjórn og spillingu“

Omar al-Bashir hefur verið handtekinn.
Omar al-Bashir hefur verið handtekinn. AFP

Omar al-Bashir, fyrrverandi forseti Súdans, hefur verið vikið úr embætti og hann handtekinn. Frá þessu greinir varnarmálaráðherra landsins. Bashir hefur verið við völd í landinu í tæpa þrjá áratugi.

Awad Ibn Ouf, varnarmálaráðherra Súdans, sagði í sjónvarpsávarpi að herinn muni taka við stjórnartaumunum í landinu næstu tvö árin, og í kjölfarið muni fara fram kosningar. 

Ouf sagði ennfremur, að búið væri að lýsa yfir neyðarástandi í landinu sem mun vara næstu þrjá mánuði. 

Fjölmenni kom saman í höfuðborg landsins til að fagna því …
Fjölmenni kom saman í höfuðborg landsins til að fagna því að búið væri að bola Bashir burt. AFP

Fram kemur á vef BBC, að mikil mótmæli gegn Bashir hafi staðið yfir í landinu undanfarna mánuði, en forsetinn hefur stýrt landinu frá árinu 1989. 

Skipuleggjendur mótmælanna hafa hvatt landsmenn til að halda áfram að mótmæla þrátt fyrir aðgerðir hersins. 

Ekki liggur fyrir hvar Bashir er í haldi.

Ouf segir að þjóðin hafi mátt þola „óstjórn, spillingu og skort á réttlæti“. Hann baðst afsökunar á því ofbeldi og dauðsföllum sem hafi átt sér stað í landinu. 

Bashir hefur verið við völd í landinu frá árinu 1989.
Bashir hefur verið við völd í landinu frá árinu 1989. AFP

Hann sagði ennfremur, að stjórnarskrá landsins hefði verið numin úr gildi, landamæri lokuð ótímabundið sem og lofthelgi landsins lokuð í sólarhring. 

Fjölmenni kom saman til að fagna eftir að fréttirnar bárust, en margir komu saman við höfuðstöðvar hersins í Kartúm, höfuðborg landsins. Sumir föðmuðu hermenn og klifruðu upp á brynvarin ökutæki. 

Þá segir leyniþjónusta landsins að öllum pólitískum föngum verði veitt frelsi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert