Tilvera Assange eins og Truman Show

Kristinn Hrafnsson fullyrðir að njósnað hafi verið um Assange í …
Kristinn Hrafnsson fullyrðir að njósnað hafi verið um Assange í sendiráði Ekvador í Lundúnum, frá því að Lenín Moreno tók við embætti forseta árið 2017. Hann ræðir hér við fjölmiðla ásamt Jennifer Robinson, lögmanni WikiLeaks. AFP

Kristinn Hrafnsson, ritstjóri WikiLeaks, sagði við fjölmiðla í Westminster í Lundúnum í dag að frá því Lenín Moreno tók við forsetaembættinu í Ekvador árið 2017 hafi líf Julians Assange verið í líkingu við líf aðalsöguhetjunnar í kvikmyndinni Truman Show.

Kristinn sagði við fjölmiðla að reynt hefði verið að kúga fé út úr WikiLeaks með þúsundum mynda og mörgum gígabætum af myndskeiðum, sem tekin hefðu verið af Assange innan veggja ekvadorska sendiráðsins í Lundúnum, þar sem hann hefur dvalið allt frá árinu 2012.

Kristinn segir að hópur skuggalegra manna á Spáni hafi nálgast forsvarsmenn WikiLeaks og krafist þriggja milljóna bandaríkjadala fyrir að lofa því að myndirnar af Assange yrðu ekki birtar.

„Það er ekki erfitt að sjá það sem kúgun,“ sagði Kristinn, og bætti því við að lögregla á Spáni væri byrjuð að rannsaka málið. Hann sagði njósnastarfsemi stjórnvalda í Ekvadór á hendur Assange hins vegar mun alvarlegra mál en fjárkúgunarnir og kallaði njósnirnar innan sendiráðsins „ólöglegar og ótrúlega siðlausar.“ Hann sakar einnig starfsmenn sendiráðsins um að hafa ljósritað lagaskjal sem tilheyrði lögmanni Assange, Aitor Martinez.

Kristinn sagði fjölmiðlum jafnframt að WikiLeaks hefði fengið boð um það frá „mjög öruggum heimildarmönnum“ í síðustu viku að Ekvador ætlaði að vísa Assange úr sendiráðinu.

Hann segir það vera mat WikiLeaks að eina ástæðan fyrir því að Assange var ekki kastað á dyr sendiráðsins strax í síðustu viku sé sú að WikiLeaks hafi komist að þeim fyrirætlunum.

Julian Assange á leið í dómshúsið í Westminster í dag.
Julian Assange á leið í dómshúsið í Westminster í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert