Áhorfendur hlógu þegar uppistandarinn dó

Ian Cognito.
Ian Cognito. Ljósmynd/Twitter

Enski uppistandarinn Ian Cognito lést á sviði í miðri sýningu í bænum Bicester, skammt norðan við Oxford, í gær. Áhorfendur héldu að dauðsfallið væri hluti af sýningunni og héldu áfram að hlæja.

Frá þessu er greint á vef BBC.

„Tíu mínútum áður grínaðist hann með það að fá slag. Hann sagði: „ímyndið ykkur að fá slag, vakna upp og tala velsku,““ sagði John Ostojak, einn þeirra sem var í salnum.

„Við héldum einfaldlega að þetta væri hluti af atriðinu. Okkur leið mjög illa eftir þetta en við höfðum setið þarna í nokkrar mínútur, horft á hann og hlegið,“ bætti Ostojak við.

Samkvæmt frétt BBC settist sextugur uppistandarinn á stól þar sem hann virtist eiga erfitt með andardrátt, áður en hann sat þögull í fimm mínútur. Að lokum var hringt á sjúkrabíl en Cognitio var úrskurðaður látinn á staðnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina