„Hræðilega átakanlegt“

Rostungarnir eru vanir mjúkri lendingu, ísnum sem er þeirra búsvæði. …
Rostungarnir eru vanir mjúkri lendingu, ísnum sem er þeirra búsvæði. En hann er ekki lengur til staðar. Skjáskot/Netflix

„Þetta er það erfiðasta sem ég hef nokkru sinni þurft að mynda,“ segir Sophie Lanfear, leikstjóri heimildaþáttanna Our Planet sem gerðir eru í samstarfi við David Attenorough og verða sýndir á Netflix. Þar er hún að tala um hóp rostunga í sjálfheldu sem falla einn af öðrum fram af bjargbrún og drepast.

Kvikmyndagerðarmennirnir urðu vitni af hinum hræðilegu atburðum í Beringssundi norðaustur af Rússlandi. Þar þurfa um 100 þúsund rostungar að halda til á litlu klettóttu svæði því ísinn sem er þeirra hefðbundna búsvæði hefur bráðnað vegna loftslagsbreytinga.

Í myndbrotinu úr þáttunum, sem hægt er að horfa á hér að neðan, má sjá hvar hópur rostunga er kominn út á klettabrún. Hvert dýr er um tvö tonn að þyngd og þau gera sér ekki grein fyrir hversu hátt þau eru uppi. Þeir fikra sig því nær brúninni og falla svo fram af henni, um áttatíu metra, ofan á hvassa klettanna. Í flæðarmálinu sjást svo hundruð dauðra rostunga. 

„Þetta atriði er það erfiðasta sem ég hef þurft að taka upp,“ segir leikstjórinn Lanfear í samtali við New York Times. „Þeir áttu von á mjúkri lendingu. Ég hélt að það yrði í lagi með þá, ég áttaði mig ekki á hversu margir þeirra myndu drepast. Þetta var hræðilega átakanlegt.“

Hún segir kvikmyndagerðarmennina hafa tárast.

Our Planet fjallar um áhrif loftslagsbreytinga á ýmsar gerðir vistkerfa um heim allan. Í þáttunum er einnig fjallað um einfaldar leiðir sem mannkynið getur farið til að draga úr áhrifum sínum á loftslagið og þar með náttúruna alla.

Þættirnir eru unnir í samstarfi Alþjóða náttúruverndarsjóðsins (WWF) og framleiðslufyrirtækisins Silverback Films sem einnig hafa komið að gerð fjölmargra náttúrulífsþátta sem sýndir hafa verið á BBC.

Viðkvæmir eru varaðir við myndefninu hér að neðan.

mbl.is