Íhuga að halda rannsókn nauðgunarmáls áfram

Julian Assange, stofnandi WikiLeaks, sést hér á svölum sendiráðs Ekvadors …
Julian Assange, stofnandi WikiLeaks, sést hér á svölum sendiráðs Ekvadors í London þar sem hann dvaldi í sjö ár eða allt þar til hann var handtekinn í gær. AFP

Rannsókn á meintri nauðgun sem Julian Assange, stofnandi Wikileaks, er sakaður um í Svíþjóð, verður mögulega tekin upp að nýju, nú þegar hann hefur verið handtekinn í sendiráði Ekvador í London vegna óskyldra mála. Assange fékk hæli í sendiráðinu í sjö ár. 

Lögmaður konunnar, sem sakar Assange um nauðgun, segist ætla að gera allt sem í sínu valdi standi til að lögreglan hefji rannsókn á málinu á nýjan leik.

Í frétt BBC er rifjað upp að Assange hafi sótt um hæli í sendiráðinu árið 2012 til að komast hjá því að verða framseldur til Svíþjóðar vegna meintra kynferðisbrota. Í gær drógu stjórnvöld í Ekvador vernd sína til baka sem gerði lögreglunni kleift að handtaka hann. Hann var í kjölfarið færður fyrir dóm og fundinn sekur um að hafa ekki mætt fyrir dómara í London árið 2012. Fyrir það brot gæti hann átt tólf mánaða fangelsisdóm yfir höfði sér. Hann er nú í varðhaldi.

Sænsk yfirvöld hættu rannsókn á kynferðisbrotamálinu árið 2017 því þau gátu ekki gert honum formlega grein fyrir sakarefninu en slíkt skref er nauðsynlegt til að halda rannsókn mála áfram. Í frétt BBC segir að þau skoði nú að taka upp þráðinn að nýju en fyrningarfrestur rennur út árið 2020. Assange neitar sök.

Bandarísk stjórnvöld hafa farið fram á framsal Assange en þar í landi bíður hans ákæra vegna tölvuinnbrota. Verði hann fundinn sekur gæti hann átt yfir höfði sér fimm ára fangelsisdóm.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert