Kim herðir stjórnartaumana

Kim Jong-un leiðtogi Norður-Kóreu. Við hlið hans stendur Choe Ryong-hae …
Kim Jong-un leiðtogi Norður-Kóreu. Við hlið hans stendur Choe Ryong-hae sem var kjörinn forseti æðstaráðs Kommúnistaflokksins. AFP

Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, hefur nú fengið titilinn „æðsti fulltrúi allra Kóreubúa“, en Kim var endurkjörinn yfirmaður utanríkismálanefndar á aðalfundi norðurkóreska kommúnistaflokksins í gær. Nýr forsætisráðherra var þá einnig kjörinn á fundinum og nýr forseti æðstaráðs Kommúnistaflokksins, en sú staða er þó eingöngu til málamynda og heldur Kim áfram um valdataumana. 

Reuters segir endurkjör Kims ekki hafa komið á óvart, en ljóst sé að með skipun nýrra manna í æðstu embætti sé hann að styrkja stöðu sína á valdastóli.

Choe Ryong Hae var kjörinn forseti æðstaráðs norðurkóreska kommúnistaflokksins og tekur við af Kim Yong-nam sem hefur gegnt embættinu, sem búið var til sérstaklega fyrir hann, frá árinu 1988.

Þá tekur Kim Jae-ryong við embætti forsætisráðherra af Pak Pong-ju, sem verður varaformaður flokksins en Pak hefur átt þátt í mörgum róttækum breytingum á efnahag landsins að sögn sérfræðinga og var ekki alltaf vel liðinn af föður Kims.

Nýi titill leiðtogans var samþykktur með sérstakri tilskipun í febrúar en hefur ekki verið notaður fyrr en nú og segir Reuters óljóst hvort hann verði innleiddur í stjórnarskrá landsins.

Átta ár eru nú frá því Kim tók við af föður sínum Kim Jong-il og segja sérfræðingar að með breytingum á stjórninni nú sé hann að taka völdin að fullu í eigin hendur.

„Þetta eru líklega mestu breytingar sem gerðar hafa verið á stjórninni um árabil,“ segir Michael Madden, sérfræðingur í málefnum Norður-Kóreu við Stimson Center hugveituna í  Washington.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert