Bannað að selja húsið með spurningaleik

Upphaflega reyndu hjónin að selja húsið með hefðbundnum hætti í …
Upphaflega reyndu hjónin að selja húsið með hefðbundnum hætti í gegnum fasteignasölu, en ákváðu svo að reyna leikinn.

Fyrir aðeins 13 evrur, tæpar 1.800 kr. var hægt að taka þátt í spurningaleik á netinu og fá þannig tækifæri að að vinna sumarhús í Dordogne í suðvesturhluta Frakklands. Húsið er í eigu Brigitte og Christophe Demassougne sem upphaflega settu húsið í sölu hjá fasteignasölu í nágrenninu. BBC greinir frá.

Frönsk yfirvöld hafa hins vegar nú beint sjónum sínum að leiknum, sem sagður er brjóta í bága við franskar reglur um netleiki. Hjónin hafa nú átta daga frest til að sanna að leikurinn brjóti ekki reglurnar.

Demassougne hjónin vonuðust til að hagnast um tvær milljónir evra á leiknum og stóð til að einhver heppinn keppandi hneppti svo húsið í verðlaun í desember.

Síðastliðinn 20 ár hafa hjónin átt  landareign í  Cénac-et-Saint-Julien, 450 m2 hús með átta svefnherbergjum sem að hluta er frá 18. öld, sundlaug, tennisvelli  og útihúsum og er eignin metin á 1,5 milljón evrur.

Hjónin eru nú að nálgast eftirlaunaaldurinn og ákváðu þá að setja eignina að á markaðinn en datt svo í hug að efna til netleiks.

„Ég ákvað að ef ég vildi selja húsið einhvern tímann, þá myndi ég gera það á þennan hátt. Lögfræðikostnaður er hár og fólk hefur ekki efni á að kaupa svona eignir,“ sagði Brigitte Demassougne í samtali við France Bleu útvarpsstöðina þegar keppninni var hleypt af stokkunum.

Hjónin vonuðust til að fá um 150.000 manns til að taka þátt í leiknum fyrir 1. desember á þessu ári, þannig að þau næðu að safna tveimur milljónum evra. BBC segir þau hafa gert ráð fyrir áhuga Frakka, en einnig mögulega þátttakenda utan landsteinanna. Er fólk frá Bretlandi, Kanada, Belgíu og Ástralíu þegar búið að taka þátt í leiknum.  

Dordogne dalurinn hefur lengi notið vinsælda hjá ferðamönnum og frá því opnað var á leikinn 1. apríl hafa 20.000 manns tekið þátt að sögn AFP-fréttaveitunnar.

Til að taka þátt þarf, auk greiðslu 13 evra að svara tveimur auðveldum krossaspurningum réttum, sem og að giska á verðgildi þriggja muna  þar á meðal eins kílóa 18 karata gullarmbands.

Tölvuvert hefur verið fjallað um keppnina í héraðinu og fyrir vikið rataði hún inn á borð yfirvalda. BBC segir því nú vera greint frá því á vef leiksins að honum hafi verið frestað um átta daga á meðan þau sanni að hann standist lög. Hjónin taka þá einnig fram að falli úrskurður yfirvalda þeim í óhag að þá muni þau endurgreiða þeim sem þegar hafa tekið þátt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert