NRK líkir Hatara við Rammstein

Eurovision-pallborð norska ríkisútvarpsins NRK, í miðið Marte Stokstad þáttastjórnandi, hinir …
Eurovision-pallborð norska ríkisútvarpsins NRK, í miðið Marte Stokstad þáttastjórnandi, hinir frá vinstri: Per Sundnes, Ulrikke Brandstorp, Ingeborg Heldal og Morten Hegseth. Ljósmynd/NRK Julia Maria Naglestad

„Andkapítalíska sadómasókíska teknóhljómsveit kalla þau sig,“ sagði Marte Stokstad, stjórnandi Eurovision-pallborðs NRK, þegar framlag Hatara til Eurovision var rætt í kvöld ásamt tíu öðrum fulltrúum keppninnar. Íslenska sveitin vakti blendin viðbrögð og hafnaði í fimmta sæti af tíu en þátturinn má ekki gefa norska laginu stig sem var það ellefta í kvöld. Ingeborg Heldal, einn dómenda, sagði Hatara einna helst minna á Rammstein.

Hatari, fulltrúi Íslands í Eurovision-keppninni í Tel Aviv í Ísrael í maí, hlaut allan einkunnaskalann, frá tveimur til tólf, þegar árlegt Eurovision-pallborð norska ríkisútvarpsins NRK kom saman í fyrsta þætti sínum af fjórum í kvöld, Adresse Tel Aviv, þar sem sérvaldir fulltrúar útvarpsins ræða lögin og gefa þeim einkunn en kalla auk þess til „sófadómstólinn“, fjóra fulltrúa áhorfenda úr sal sem gefa sínar einkunnir.

Þátturinn er árviss og ber að jafnaði nafnið Adresse og nafnið á þeirri borg sem hýsir keppnina hverju sinni, að þessu sinni Adresse Tel Aviv. Stjórnandinn Marte Stokstad leiðir þar saman fjóra dómendur og situr þar óopinberlega í forsæti Per Sundnes sem er fyrrverandi þáttastjórnandi á NRK og popptónlistarspekingur, en honum til fulltingis í ár eru þau Morten Hegseth, Ingeborg Heldal og Ulrikke Brandstorp.

Hatari vakti blendin viðbrögð pallborðs NRK í kvöld, allt frá …
Hatari vakti blendin viðbrögð pallborðs NRK í kvöld, allt frá sjúkrabílaútköllum til iðnaðarrokks sem minnti á Rammstein. Ljósmynd/Eggert Jóhannesson

Þættirnir eru alls fjórir og deilast niður á fjögur laugardagskvöld fram að lokakeppninni, páskarnir þó undanskildir. Framlögin sem í kvöld voru krufin til mergjar voru nágrannarnir Ísland og Noregur en auk þeirra Rússland, Malta, Ungverjaland, Moldóva, Frakkland, Armenía, Eistland, Ástralía og Kýpur.

Stokstad beindi strax, áður en lagið var spilað, orðum sínum til Sundnes, sem kemur frá Bodø í Norður-Noregi og þykir ein helsta Eurovision-völva Noregs. „Það hefur verið dálítil dramatík í kringum þetta lag núna fyrir keppnina,“ sagði Stokstad. „Já, þeir [Hatari] hafa gagnrýnt Ísraela sem gestgjafa,“ svaraði Sundnes, „og Ísrael hefur sætt mikilli gagnrýni á Íslandi. Þetta lag kemur til með að fá gríðarlega athygli vegna þess að við vitum ekki hvað þeir munu gera. Svona lagað á þó ekki að vera leyfilegt, Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva á að vera laus við stjórnmálaágreining, munu þeir reyna að senda einhver leynileg skilaboð?“ spurði Sundnes og gekk illa að leyna áhuga sínum á svarinu við eigin spurningu. „Ég vona nú að þeir geri eitthvað meira en það,“ skaut Stokstad inn í og uppskar hlátrasköll.

„Hæfir mig í hjartastað“

Var framlag Hatara að því búnu spilað og gerðu textasetjarar NRK sitt besta til að skila texta lagsins á íslensku þar sem sjá mátti perlur á borð við „Glein tekur enda“ og „Runnu níur tár“. Brutust út ærandi fagnaðarlæti í sal að spilun lokinni. 

„Ég hef nú mestar áhyggjur af sjúkraflutningafólki í Noregi,“ sagði Ulrikke Brandstorp. „Þau verða ófá útköllin vegna andnauðar þetta laugardagskvöldið.“ „Þetta hæfir mig beint í hjartastað,“ sagði Ingeborg Heldal. „Þetta er svona þungt iðnaðarrokk sem minnir mig á Rammstein, þetta er flott syntetískt rokk og ég elska Ísland. Þetta er algjörlega klikkað fólk sem sendir þetta frá sér [for noen sjuke sjuke folk dere er som sender dette],“ sagði Heldal og klappaði saman höndunum.

„Þetta verður nú varla vinsælt í útvarpi,“ byrjaði Brandstorp en Morten Hegseth, blaðamaður frá Stjørdal sem starfar við þátt VGTV, Sviðsljósið (n. Rampelys), tók nánast af henni orðið: „Eurovision-keppnin nýtur mikilla vinsælda meðal samkynhneigðra karlmanna og þetta lag verður vinsælt meðal þeirra,“ sagði Hegseth sem sjálfur er samkynhneigður og giftur norska fjárfestinum Anders Riiber, en ekki var síður gripið fram í fyrir honum þegar Ingeborg Heldal tróð sér inn í umræðuna og sagði „Já já, eins finnast nú gagnkynhneigðar stúlkur sem hrífast af lakki og leðri,“ og hlógu viðstaddir dátt.

Ein tólfa úr sófanum

Var að þessu búnu gengið til stigagjafar þar sem Heldal gaf tíu stig (af tólf), það gerði Hegseth einnig, Brandstorp gaf fimm stig en Sundnes fór að dæmi meirihlutans og gaf tíu.

Þá var komið að sófanum. Einkunnir þar voru Amanda: 3 (rökstuðningur leiðinlegt), Anders: 3 (rökstuðningur eintóna (n. monotonisk) og líkar ekki pólitíski undirtónninn gagnvart Ísrael), Ingvild: 2 (of mikið) og Steinar (sem skar sig úr í nánast öllum stigagjöfum kvöldsins): 12 (mjög spennandi, gríðarlegar andstæður í tónlist, rokk, teknó og þessi grófi söngur innan um englaraddir, mér finnst þetta snilld tónlistarlega séð).

Þar með hlaut Hatari 55 stig og lenti í 5. sæti af tíu lögum í kvöld. Heildarstigin voru þessi (þátturinn má ekki gefa framlagi Noregs stig önnur en að ræða lagið sem hlaut ágæta dóma, einkum frá Per Sundnes sem kallaði Sama menningarkima Noregs):

Kýpur 92

Malta 83

Armenía 62

Frakkland 61

Ísland 55

Rússland 51

Ungverjaland 48

Ástralía 39

Moldóva 32

Eistland 22 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert