Vill að Trump sýni breytt hugarfar

Donald Trump og Kim Jong-un áttu sögulegan fund í júní …
Donald Trump og Kim Jong-un áttu sögulegan fund í júní á síðasta ári. Leiðtogarnir tveir segjast báðir tilbúnir að hittast á ný á þessu ári, eftir árangurslausan fund í janúar. AFP

Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, er reiðubúinn að hitta Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, að nýju, svo lengi sem hann sé tilbúinn að mæta honum með réttu hugarfari. Kim gefur bandarískum stjórnvöldum frest til loka þessa árs til þess að finna nýjan fundartíma.

Trump og Kim hitt­ust á sögu­leg­um leiðtoga­fundi í Singa­púr í júní í fyrra þar sem eþir undirrituðu samkomulag um afkjarnorkuvæðingu Kóreuskaga. Þeir áttu svo ann­an fund í janú­ar í Hanoi en þeim fundi var slitið án niður­stöðu um kjarn­orku­af­vopn­un Kór­eu­skag­ans. Trump hef­ur samt sem áður haldið því fram að sam­bandið milli sín og Kim sé gott.

Kim tók undir þau orð á ræðu sem hann hélt á norður-kóreska þinginu í gær en hann sagði einnig að eftir fundinn í Hanoi efist hann um raunverulegan áhuga Bandaríkjamanna á að bæta samskipti ríkjanna. Hann sé hins vegar reiðubúinn að gefa bandarískum stjórnvöldum lokatækifæri.

Sjálfur hefur Trump lýst yfir áhuga á að hitta Kim þriðja sinni, en frá því greindi hann fyrir fund sinn með Moon Jae-in, forseta Suður-Kóreu, í Hvíta húsinu í fyrradag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert