Segir Trump ekki hvetja til ofbeldis

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Sarah Sanders, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, varði í dag Donald Trump Bandaríkjaforseta af ásökunum þess efnis að hann væri að hvetja til ofbeldis gegn Demó­krataþing­kon­unni Ilh­an Omar eftir að Trump birti myndskeið á Twitter þar sem hún talar um árás­irn­ar á tví­bura­t­urn­ana.

Omar var á ráðstefnu CAIR, ráðgjaf­ar­nefnd­ar um banda­rísk-ís­lömsk sam­skipti, að ávarpa múslima, og sagði um þau sam­tök: „Hér er sann­leik­ur­inn. Um of langa hríð höf­um við lifað við þá óþægi­legu til­finn­ingu að vera ann­ars flokks borg­ar­ar. Ég verð að segja að ég er orðin þreytt á því og hver ein­asti múslimi í þessu landi ætti að vera þreytt­ur á því. CAIR var stofnað eft­ir 9/​11, af því þeir geng­ust við því að eitt­hvað fólk gerði eitt­hvað og að við vær­um öll byrjuð að glata rétt­ind­um okk­ar sem borg­ar­ar,“ sagði Omar í ræðu sinni.

Trump birti myndband á Twitter-síðu sinni þar sem klippt er saman brot úr ræðu Omar og myndefni af árásunum. Færslan er fest efst á Twitter síðu hans og hafa níu milljónir manna horft á hana. „11. SEPTEMBER 2001. VIÐ MUNUM ALDREI GLEYMA!" skrifaði Trump með færslunni.

Fjölmargir þingmenn Demókrata, þeirra á meðal Beto O'Rourke, Kamala Harris og Alexandria Ocasio-Cortez hafa komið Omar til varna. Þingmennirnir segja að forsetinn og aðrir Repúblikanar taki orð hennar vísvitandi úr samhengi og stofni lífi hennar í hættu.

Ilh­an Omar hef­ur verið gagn­rýnd fyr­ir að gera lítið úr …
Ilh­an Omar hef­ur verið gagn­rýnd fyr­ir að gera lítið úr árás­un­um á tví­bura­t­urn­ana 11. sept­em­ber 2001. AFP

„Forsetinn hefur ekkert illt í hyggju og hvetur ekki til ofbeldis gegn fólki,“ sagði Sanders en bætti því við að það væri rétt hjá honum að benda á ummæli Omar. Hún sagði að Omar hefði áður gerst sek um gyðingaandúð.

Omar sagði sjálf að enginn, sama hversu spilltur eða grimmur viðkomandi væri, gæti ógnað staðfastri ást hennar á Bandaríkjunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert