Þrír létust í flugslysi í Lukla

Flugvélin, sem er að gerðinni L-410 Turbolet, rann út af …
Flugvélin, sem er að gerðinni L-410 Turbolet, rann út af flugbrautinni og rakst við það á tvær þyrlur. AFP

Þrír létust og þrír slösuðust þegar lítilli flugvél hlekktist á í flugtaki og rakst á tvær þyrlur á flugvellinum í Lukla í Nepal í dag. Flugvöllurinn er einkum notaður til að flytja fjallgöngufólk að og frá Everest-fjalli og er talinn einn hættulegasti flugvöllur í heimi hvað varðar aðflug og flugtak.

Flugvélin, sem er að gerðinni L-410 Turbolet, rann út af flugbrautinni og rakst við það á tvær þyrlur. Aðstoðarmaður vélarinnar og lögreglumaður létust samstundis og annar lögreglumaður lést á sjúkrahúsi skömmu síðar. Þrír slösuðust til viðbótar og voru fluttir á sjúkrahús í Katmandú.

Flugvöllurinn var tekinn í notkun árið 1964 og aðeins er hægt að lenda flugvélum eða þyrlum sem eru hannaðar fyrir stuttar flugbrautir. Það, auk fjallanna í kring, gera aðflug og flugtak afar vandasamt og banaslys eru tíð á flugvellinum.

Sjö manns, þar á meðal ferðamálaráðherra Nepal, létu lífið í febrúar þegar þyrla hrapaði í fjöllunum fyrir ofan flugvöllinn.

Þrír létust og þrír slösuðust þegar flugvélinni hlekktist á í …
Þrír létust og þrír slösuðust þegar flugvélinni hlekktist á í flugtaki og rakst á tvær þyrlur. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert