Foreldrarnir hentu klámsafninu

Maðurinn höfðaði einkamál á hendur foreldrum sínum.
Maðurinn höfðaði einkamál á hendur foreldrum sínum. mbl.is

Fertugur karlmaður í Indiana í Bandaríkjunum hefur kært foreldra sína fyrir að henda klámmyndasafni sem hann átti og geymdi á heimili þeirra. Hann telur safnið dýrmætt eða um 3,5 milljóna króna virði. 

Forsaga málsins er sú að maðurinn flutti aftur heim í foreldrahús árið 2016 í kjölfar skilnaðar. Þar bjó hann í tíu mánuði og er foreldrarnir sendu honum eigur hans á nýja heimilið vantaði allt klámsafnið í farminn. Klámsafnið samanstóð af tólf kössum af klámmyndum og klámblöðum. 

Maðurinn leitaði til lögreglu sem þótti ekki tilefni til að rannsaka málið. Hann ákvað því að höfða einkamál á hendur foreldrum sínum. Meðal gagna málsins eru tölvupóstar sem fóru á milli hans og föður hans. Í einum þeirra skrifaði faðirinn: „Ég gerði þér stóran greiða með því að henda öllu þessu dóti.“

Maðurinn fer fram á um tíu milljónir króna í skaðabætur.

AP-fréttastofan greinir frá.

mbl.is