Hverju er mótmælt í Súdan?

Herforinginn Abdel Fattah al-Burhan Abdulrahman leiðir herstjórnina sem tekið hefur ...
Herforinginn Abdel Fattah al-Burhan Abdulrahman leiðir herstjórnina sem tekið hefur völdin af forsetanum í Súdan. AFP

Mótmæli hafa staðið yfir í Súdan í um fjóra mánuði og urðu þau í síðustu viku til þess að forseti landsins til þriggja áratuga, Omar al-Bashir, var hrakinn frá völdum.

En mótmælin halda áfram og m.a. standa setuverkföll, sem hófust þann 6. apríl fyrir utan höfuðstöðvar hersins í höfuðborginni Khartoum, enn yfir.

Omar al-Bashir in Khartoum ríkti í Súdan í þrjá áratugi.
Omar al-Bashir in Khartoum ríkti í Súdan í þrjá áratugi. AFP

Í fyrstu var það krafa mótmælenda að fá stuðning hersins til að koma Bashir frá völdum. Frá því að það svo varð að veruleika hafa þeir krafist þess að herstjórnin, sem nú er við völd, fari að kröfum „byltingar“ þeirra. 

Hér að neðan má fræðast um þær lykilkröfur sem mótmælendur hafa sett fram undir hatti samtakanna Bandalag um frelsi og breytingar. Setuverkföllum lýkur ekki fyrr en kröfunum verður mætt.

  • Mótmælendur krefjast þess, í fyrsta lagi, að borgaralegri stjórn verði komið á í landinu og að hún sitji í fjögur ár. Í kjölfarið verði efnt til kosninga.
  • Að flokkur Bashirs, Þjóðarflokkurinn, verði leystur upp og að leiðtogar hans verði sóttir til saka, m.a. Bashir sjálfur.
  • Að eignir Þjóðarflokksins verði gerðar upptækar.
  • Að stjórnarskrá landsins frá árinu 2005 verði aftur tekin í gagnið en hún var sett til hliðar er herstjórnin tók við í síðustu viku.
  • Að borgurum sem handteknir hafa verið í mótmælunum síðustu mánuði verði sleppt úr haldi sem og lögreglu- og hermönnum sem sitja í gæsluvarðhaldi þar sem þeir neituðu að skjóta á mótmælendur.
  • Að neyðarástandi, sem Bashir lýsti yfir í landinu 22. febrúar, verði aflétt.

Bandalag frelsis og breytinga hefur kynnt herstjórninni þessar kröfur en viðræður eru ekki enn hafnar. Samtök starfsmanna, m.a. kennara, lækna og verkfræðinga, fór í fyrstu fyrir mótmælunum. Þau hafa hvatt til þess að setuverkföllum verði framhaldið „þar til kröfum byltingarinnar verði mætt“.

Herforinginn sem leiðir herstjórnina, Abdel Fattah al-Burhan, hefur heitið því að leysa uppræta stjórn Bashirs. Stjórnin segir Bashir í varðhaldi en ekki hefur verið gefið upp hvar hann er í haldi og hvort fleiri leiðtogar flokksins hafa verið handteknir.

Herstjórnin segist hins vegar ekki ætla að framselja Bashir úr landi en hann er eftirlýstur af alþjóðaglæpadómstólnum vegna gruns um þjóðarmorð og glæpi gegn mannkyni. Bashir hefur neitað sök.

mbl.is
Húsaviðgerðir
https://www.husco.is...
www.flutningur.is 5753000 sendibilastöð
Allar stærðir sendibíla. Traust og góð þjónusta við fyrirtæki og einstaklinga. ...
VolkswagenPolo 2006 til sölu
Vetrar og sumardekk, 4 dyra, ekinn 179 þ.km. Gott viðhald og smurbók. Verð 240 þ...