Segir hægt að fyrirgefa helförina

Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu.
Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu. AFP

Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, hefur vakið reiði með þeim ummælum sínum að þjóðarmorð nasista á gyðingum í síðari heimsstyrjöldinni sé fyrirgefanlegt. Frá þessu er greint í frétt Reuters.

Bolsonaro heimsótti Ísrael í síðasta mánuði. Þar stuðaði hann einnig marga er hann sagði, eftir að hafa skoðað safn til minningar um fórnarlömb helfararinnar, að nasistar hefðu verið vinstrimenn.

Forsetinn sagði svo á fundi með kirkjunnar mönnum í síðustu viku að hægt væri að fyrirgefa en ekki gleyma. Það væri hans skoðun. „Þeir sem gleyma fortíð sinni þeir eiga sér enga framtíð.“

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, hefur ekki brugðist við ummælum Bolsonaro en það hefur foreti Ísraels, Reuven Rivlin, gert. Hann skrifaði á Twitter að það væri ekki hlutverk annarra að ákveða hverjum sé hægt að fyrirgefa eða hvort ætti að fyrirgefa þá glæpi sem framdir voru í helförinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert