Sprengdu gamla sprengju

Frankfurt eftir loftárásir bandamanna við lok síðari heimsstyrjaldarinnar.
Frankfurt eftir loftárásir bandamanna við lok síðari heimsstyrjaldarinnar. Ljósmynd/Wikipedia.org

Sprengja frá árum síðari heimsstyrjaldarinnar var sprengd í gærmorgun í Main-ánni í borginni Frankfurt í Þýskalandi. Kafarar fundu sprengjuna, sem vó 250 kíló og var varpað á borgina í stríðinu af Bandaríkjamönnum, á botni árinnar á þriðjudaginn.

Fram kemur í frétt Thelocal.de að stórt svæði í kringum staðinn þar sem sprengjan fannst hafi verið rýmt og um 600 mann hafi þurft að yfirgefa það. Kafarar á vegum slökkviliðs Frankfurt, sem voru við æfingar í ánni, rákust á sprengjuna fyrir tilviljun.


Sprengjusérfræðingar köfuðu niður að sprengjunni og komu henni fyrir á meira dýpi í ánni áður en sprengjan var sprengd eða á sex metra dýpi. Sprengingin var gríðarlega öflug og gaus up há vatnssúla í kjölfar hennar eins og sjá má á meðfylgjandi myndbandi.

Minni sprengjur höfðu áður verið sprengdar til þess að fæla burt fiska og önnur dýr. Kafarar köfuðu síðan niður að sprengjunni eftir að hún hafði sprungið til þess að kanna hvort nokkur hætta væri enn á ferðum og staðfestu að svo væri ekki.

Reglulega finnast sprengjur frá tímum síðari heimsstyrjaldarinnar í Þýskalandi, ekki síst við byggingaframkvæmdir, en miklu magni af sprengjum var varpað á þýskar borgir í stríðinu af bandamönnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert