Stefnir í erfiða stjórnarmyndun

Antti Rinne, formaður Jafnaðarmannaflokksins, í morgunsárið.
Antti Rinne, formaður Jafnaðarmannaflokksins, í morgunsárið. AFP

Talsvert snúið gæti reynst að mynda starfhæfa ríkisstjórn í Finnlandi í kjölfar þingkosninganna sem fram fóru í gær. Jafnaðarmenn fengu mest fylgi en fast á hæla þeirra komu Finnaflokkurinn, sem leggur áherslu á herta stjórn innflytjendamála, og hægriflokkurinn Samstöðuflokkurinn.

Flestir flokkanna hafa útilokað samstarf við Finnaflokkinn vegna innflytjendastefnu hans og það á meðal annars við um Jafnaðarmannaflokkinn. Jafnaðarmenn munu leiða tilraunir til þess að mynda ríkisstjórn en hafa sagt að þeir séu ekki tilbúnir í samstarf sama hvað það kosti. Hið sama hefur Jussi Halla-aho, leiðtogi Finnaflokksins, sagt.

Líklegt er talið að Jafnaðarmannaflokkurinn og Samstöðuflokkurinn muni taka saman höndum í ríkisstjórn til þess að halda Finnaflokknum frá völdum.

Jafnaðarmenn fengu 17,7% atkvæða og 40 þingmenn kjörna samkvæmt fréttavef finnska ríkisútvarpsins YLE. Bætti flokkurinn við sig sex þingmönnum. Finnaflokkurinn hlaut 17,5% og 39 þingmenn. Bættu við sig einum þingmanni. Samstöðuflokkurinn fékk 17% atkvæða og 38 þingmenn. Bætti við sig einum.

Miðflokkurinn fékk hins vegar 13,8% og 31 þingmann. Missti 18 þingmenn. Miðflokkurinn fór fyrir fráfarandi ríkisstjórn, sem mynduð var með Samstöðuflokknum og Finnaflokknum en síðan flokknum Bláum umbótum sem klauf sig úr Finnaflokknum, undir forsæti kaupsýslumannsins Juha Petri Sipilä.

Þá fengu Græningjar 11,5% og 20 þingmenn, bættu við sig fimm þingmönnum, og Vinstribandalagið 8,2% og 16 þingmenn. Bætti við sig fjórum þingmönnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert