Björguðu hundi á sundi 220 km frá landi

Starfsmenn olíuborpallsins björguðu Boonrod úr sjónum, en ekki er vitað …
Starfsmenn olíuborpallsins björguðu Boonrod úr sjónum, en ekki er vitað hvernig hundurinn endaði þar. AFP

Starfsmenn á olíuborpalli úti fyrir ströndum Taílands björguðu á dögunum hundi sem sem þeir sáu á sundi skammt frá borpallinum. Hvutti var örmagna er honum var bjargað, en olíuborpallurinn er í um 220 km fjarlægð frá strönd landsins.

Ekki er ljóst hvernig hundurinn endaði sem strandaglópur svo fjarri landi, en að sögn BBC er ein tilgátan sú að hann hafi dottið fyrir borð af fiskitogara.

Hvutti dvaldi nokkra daga á borpallinum áður en hann fékk …
Hvutti dvaldi nokkra daga á borpallinum áður en hann fékk far með olíuskipi sem átti leið hjá. AFP

Hvutti, sem starfsmenn olíuborpallsins gáfu nafnið Boonrod sem útleggja má sem sá sem kemst lífs af, synti í átt að þeim þegar þeir kölluðu til  hans. Þeir náðu honum því næst upp á pallinn og er Boonrod sagður hafa verið örmagna, svangur og þyrstur er honum var bjargað.

Dýralæknir annast hér Boonrod eftir komuna til Taílands.
Dýralæknir annast hér Boonrod eftir komuna til Taílands. AFP

Þeir önnuðust hundinn næstu daga og hreinsuðu saltið úr feldi hans, en fengu svo aðstoð hjá olíuskipi sem átti þar leið hjá við að koma honum á þurrt land. Var Boonrod fluttur með krana yfir í olíuskipið, en áhöfnin sá um að flytja hann til dýralæknis í suðurhluta Taílands og er hvutti sagður hafa orðið kátur við að hafa fast land undir fótum á ný.

Boonrod er sagður hafa verið hinn kátasti við að hafa …
Boonrod er sagður hafa verið hinn kátasti við að hafa fast land undir fótum á ný. AFP
mbl.is