FAA telur lagfæringu Boeing „viðeigandi“

Boeing á enn eftir að leggja endanlega útgáfu hugbúnaðarbreytinganna fram, …
Boeing á enn eftir að leggja endanlega útgáfu hugbúnaðarbreytinganna fram, en FAA segist þó telja segist telja að breytingarnar sem Boeing leggur til séu „viðeigandi“ fyrir verkið. AFP

Flugumferðastofnun Bandaríkjanna (FAA) segist telja breytingarnar sem Boeing flugvélaframleiðandinn leggur til að gerðar verði á Boeing 737 Max farþegaþotunum í kjölfar tveggja mannskæðra flugslysa séu „viðeigandi“ fyrir verkið, að því er fram kemur í skýrsludrögum sem FAA birti í dag.

Boeing hefur þó ekki enn lagt fram áætlun að lagfæringu hugbúnaðarins, að því er fram kemur í yfirlýsingu FAA. 

Flugvélaframleiðandinn hefur undanfarnar vikur unnið að hugbúnaðarbreytingum sem eiga að koma í veg fyr­ir að svo­nefnt MCAS-kerfi bili, en það á að koma í veg fyr­ir að flug­vél­in of­rísi.

Allar Max vélar Boeing hafa verið kyrrsettar frá því að farþegaþota þeirrar gerðar í eigu Ethiopian Airlines hrapaði 10. mars sl. Sambærilegt flugslys átti sér stað í Indónesíu í október, en tæplega 350 manns létu lífið í flugslysunum tveimur.

Rannsókn á tildrögum flugslysanna hefur einkum beinst að MCAS búnaðinum, sem talinn er hafa bilað og í kjölfarið þvingað vélarnar niður.

Boeing segist hafa unnið að uppfærslu á MCAS hugbúnaðinum frá því í fyrra og tilkynnti um breytingar á búnaðinum í kjölfar flugslyss Ethiopian Airlines. Flugvélaframleiðandinn greindi svo frá því fyrr í mánuðinum að fyrirtækið myndi draga úr framleiðslu sinni á Boeing 737 flugvélum um tíu vélar á mánuði á meðan unnið er að endurbótum á Max 8 útgáfu vélanna.

FAA segir nefndi um flugbúnaðarstaðla hafa kynnt sér breytingar á MCAS-kerfinu og það sé mat hennar að kerfið eigi að geta virkað.

Í skýrslunni sem öllum er heimilt að gera athugasemdir við næstu 14 daga, er m.a. vakin athygli á þeim muni sem er á Max vélunum og fyrri gerðum 737 véla, sem og nýjum kröfum um þjálfun flugmanna.

„Eftir það mun FAA fara yfir þær athugasemdir áður en lagt verður fram lokamat. Þá er enn gert ráð fyrir að Boeing muni á næstu vikum leggja fram lokaútgáfu hugbúnaðarins til vottunar,“ segir í yfirlýsingunni.

Þar sem Max vélarnar eru að verulegu leiti sambærilegar fyrri útgáfum af 737 farþegaþotunni verður þess ekki krafist að flugmenn bæti við sig umfangsmikilli viðbótar þjálfun. MCAS- kerfinu hefur þó samkvæmt skýrslunni verið bætt á lista yfir þá hluti sem þurfi „viðbótar leiðbeininga við“, til að mynda í formi myndbanda eða kennslu í gegnum tölvu.

Kyrrsetning vélanna hefur sett mikinn þrýsting á Boeing og þá hefur fjöldi flugfélaga þurft að aflýsa flugáætlunum yfir mesta ferðamannatímann vegna hennar.

mbl.is